154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Það er alveg rétt að ef við skoðum stóru myndina þá er hún sú að þessi fjáraukalög sem við erum að ræða um hér gera ráð fyrir 64,9 milljörðum kr. betri afgangi ríkissjóðs en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Tæplega 65 milljarða betri árangur, það er jákvætt.

Það er hins vegar margt sem er vekur áhyggjur okkar sem erum að vinna með þessi fjárlög alla daga. Stærsti einstaki þátturinn í því er náttúrlega bara verðbólgan sem er að stríða okkur og hefur verið þrálátari en við vorum með væntingar til í þessu frumvarpi og það kemur alveg fram í þessum fjárauka að hún er að valda okkur óleik. Við erum með 44 milljarða aukningu í lífeyrisskuldbindingu. Þetta eru bara risatölur. Við erum að setja 25 milljarða í byggingu á nýjum Landspítala á næsta ári sem okkur finnst vera ofboðsleg fjárfesting, stærsta fjárfesting sem við höfum ráðist í. Svo erum við að ræða hér um 44 milljarða sem kemur sem aukalífeyrisskuldbinding á ríkissjóð á næsta ári, sem er reyndar ekki til útgreiðslu en kemur inn í reikninginn. Þannig að jú, ég hef áhyggjur af þessu, auðvitað höfum við öll áhyggjur af þessu, en ég held samt sem áður og hef þá trú, miðað við þær tekjur sem ríkissjóður hefur verið að fá, aukninguna á tekjunum og þá þróun að vonandi erum við á niðurleið með verðbólguna og vaxtastigið í landinu, að við munum ná þokkalega góðri lendingu á næsta ári, seint á næsta ári. En áhyggjurnar eru þarna samt og skuldirnar eru áhyggjuefni og ég held að það hljóti að vera (Forseti hringir.) verkefni okkar á næstu árum að fara í það að greiða niður þessar skuldir okkar, þegar við erum komin út úr (Forseti hringir.) þessu verkefni sem við vorum öll sammála um sem var að setja rúma 300 milljarða í Covid.