154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar kærlega fyrir svörin. Ég er ánægð að heyra að hann skuli deila þessum áhyggjum því að þegar halli er veruleiki ríkisins til margra ára þá hefur það í för með sér afleiðingar fyrir næstu kynslóðir og þannig viljum við ekki halda á málum. Það situr dálítið í mér að hafa upplifað það í fjárlaganefnd að heyra það sem kemur hérna fram í gögnum málsins, að það eru boðaðar verulegar áframhaldandi lántökur á næsta ári. Það er því áhyggjuefni að þær tekjur sem eru verið að koma með núna skuli ekki nýtast betur til að greiða niður skuldir. Hitt er síðan varðandi verðbólguna að auðvitað er rétt að hún setur strik í reikninginn en í því samhengi þá bítur það okkur sjálf hérna inni, Alþingi og ríkisstjórnina kannski sérstaklega því að þetta er jú verk meiri hlutans, ef við tökum ekki markviss skref í baráttunni gegn verðbólgu. Það er áhugavert að hugsa til þess hvaða áhrif verðbólgan er að hafa á ríkissjóð sjálfan. Við erum hér alla daga að tala um það hver áhrifin eru fyrir heimilin í landinu, heimilin sem veikast stóðu fyrir, og standa, fyrir fyrirtækin, en þegar við skoðum hvað hækkandi vaxtastig gerir vaxtakostnaði ríkisins sjálfs ættum við að sjá það og upplifa að ávinningur okkar er mjög augljós af því að ná tökum á verðbólgunni og að við séum ekki að horfa upp á rúmlega 100 milljarða á ári í vaxtakostnað, 117 milljarða. Ef við síðan setjum það í samhengi við þær tölur sem formaður nefndarinnar nefnir hér, t.d. um innspýtingu, (Forseti hringir.) fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu, grundvallarþætti þar, þá er þetta sláandi.