154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirtaksræðu og ágætisnefndarálit sem ég er búinn að lesa og get tekið undir eitt og annað sem þar stendur. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir stuðninginn við tillögu meiri hlutans þegar kemur að bændum. Ég held að við séum algerlega sammála, ég og hv. þingmaður, enda í sama kjördæmi, um að þessi stuðningur muni skipta miklu máli fyrir þá sem þar eru.

Ég vil þó aðeins segja varðandi aga í fjármálum: Í nefndaráliti hv. þingmanns kemur fram að það skorti aga — ég fór aðeins yfir þetta áðan — en við erum að tala um áætlun. Fjárlög eru áætlun um tekjur ársins þar á eftir. Ég hef verið í sveitarstjórnum, var í sveitarstjórn í 12 ár þar sem við gerðum fjárhagsáætlun á hverju ári. Það er líka áætlun. Ég man aldrei eftir að sú áætlun hafi staðist upp á punkt og prik. Ég man aldrei eftir því að fjárhagsáætlun nokkurs einasta sveitarfélags hafi staðist upp á punkt og prik, hvað þá fjárlög. Það er bara þannig, virðulegur forseti, að áætlanir eru áætlanir og svo kemur raunveruleikinn á árinu.

Varðandi hvað er ófyrirséð og hvað er ekki ófyrirséð þá er það ófyrirséð þegar verðbólga sem í fjárlögum var spáð að yrði 5,6% fer upp í 8,7%. Það sá ekki nokkur maður fyrir. Það var alla vega ekki umræðan hér í fjárlögunum. Með Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þar er óvissa. Jöfnunarsjóður (Forseti hringir.) tengist tekjum ríkisins. Þegar tekjur ríkisins eru 116 milljörðum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir (Forseti hringir.) þá hækkar framlag í jöfnunarsjóð. Þetta er ekki hægt að sjá fyrir.