154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir andsvarið. Það sem ég hef verið að benda á varðandi agann er að það segir í 26. gr. laga um opinber fjármál, ákvæðið heitir Frumvarp til fjáraukalaga, að leita skuli fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.

Ég tel að við séum með lið í þessu frumvarpi sem hefði verið hægt að bregðast við með öðrum hætti. Þar vísa ég til 3,8 milljarða í almenna varasjóðnum. Það getur vel verið að við þurfum á 3,8 milljörðum að halda þennan hálfa mánuð sem er eftir af árinu, það má vel vera, en við hefðum alveg getað brugðist við því í fjáraukalögum og innan útgjaldasvigrúms, tel ég, eða þá bara að segja: Þetta verður greitt eftir áramót. Ég hef verið að benda á það.

Varðandi áætlanagerðina var upphaflega frumvarpið um fjárlög lagt fram í september, svo að ég taki bara fjárlögin sem nú eru til umræðu, en þá var gert ráð fyrir 4,9% verðbólgu. Nú veit ég til þess að í endurmati Hagstofu er gert ráð fyrir 5,6% verðbólgu en liðirnir hækka ekki allir. Við sjáum t.d. að örorku- og ellilífeyrisþegar fá bara hækkun upp á 4,9%. Ég get alveg veðjað á að þar mun þurfa að fara fram hækkun út af verðbólgu vegna þess að áætlun miðast ekki við rétta verðbólgustigið. Ég er eiginlega sannfærður um að verðbólgan á næsta ári verður meiri en 4,6%. Að vera í ár með auknar fjárheimildir ríkissjóðs um 83,5 milljarða króna, eða 6,3% af þegar samþykktum fjárheimildum, segir mér bara að við erum 6,3% ekki að hitta í mark hvað varðar áætlanagerðina. Og það segir í (Forseti hringir.) meirihlutaáliti fjárlaganefndar að við þurfum að bæta áætlanagerð fjárlaga.