154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir að gefa mér tækifæri til að segja hvernig ég myndi vilja greiða niður þessar skuldir. Ég myndi byrja á því að hækka bankaskattinn, en við erum með tillögu við 2. umræðu fjárlaga, ég myndi hækka veiðileyfagjaldið og ég myndi líka fara að huga að því að taka ferðaþjónustuna úr 11% virðisaukaskattinum og setja hana jafnvel upp í 24%. Tæknifyrirtæki eru ekki í 11% virðisaukaskatti en ferðaþjónustan er þar. Og ég tel það vera of lágt að gistináttagjaldið sé 300 kr. á nóttina á fimm stjörnu hóteli og líka á tjaldstæði. Þannig að ég myndi byrja á því að afla tekna með þessum hætti. Svo er líka það, sem er stórt mál hjá okkur, að við myndum vilja fara að skattleggja inngreiðslu í lífeyrissjóðina. Ég held að lífeyrissjóðirnir séu allt of stórir í íslensku samfélagi. Ávöxtunarkrafa þeirra keyrir upp vaxtastigið og það hækkar þá vaxtastig í landinu. Þetta er sú stóra fjármögnun sem við viljum til að draga úr tekjuskerðingunum.

Í Covid var skuldastaða ríkissjóðs ásættanleg og þannig gátum tekist á við Covid. Ég man að í hruninu vorum við með mjög góða skuldastöðu og þá gátum við tekist betur á við hrunið. Það er algjört grundvallaratriði að vera ekki of skuldsett. Við sjáum ríki sem eru á fallandi fæti. Það eru ríki í Evrópu sem eru mjög skuldsett. Við sjáum t.d. núna ríki á suðurhveli jarðar, Argentínu, sem er alveg gríðarlega skuldsett ríki, þar sem er kominn hálfgerður byltingarmaður til valda, en það er stóra málið í ríkisfjármálunum. Við eigum ekki að eyða um efni fram. Ég tel að þetta sé leiðin til að afla frekari tekna án þess að það skaði hina nýju atvinnugrein eða atvinnuvegi landsins á nokkurn hátt.

Ég vil nota tækifærið að lokum og þakka hv. formanni fyrir gott og skemmtilegt samstarf á haustinu sem nú er að líða.