154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tel að það að fara 6,3% frá samþykktum fjárheimildum, eða 83,5 milljarða, sé merki þess að áætlanagerð fjárlaga sé ekki nægilega góð. Vissulega erum við með ástandið á Reykjanesi, við erum með verðbólgu og stuðning til bænda en ég tel að þetta sé of há tala. Við ættum í eðlilegu árferði að vera kannski í kringum 2% eða 3%. Þetta fer náttúrlega allt eftir því hvort það sé eldgos eða eitthvað slíkt en mér finnst þetta of mikið, enda segir líka í áliti meiri hlutans að það þyrfti að bæta áætlanagerð fjárlaga og líka varðandi húsbyggingar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann og hann fjallaði aðeins um þetta í ræðu sinni varðandi tekjur og gjöld: Hvort telur hv. þingmaður að ríkissjóður eða fjárlagagerð næsta árs, og jafnvel í ár líka, eigi við útgjaldavandamál að stríða eða tekjuvandamál? Og ef það er útgjaldavandamál, hvar á þá að skera niður? Og ef þetta er tekjuvandamál, hvar ætti þá að afla aukinna tekna í ríkissjóð til að reka ríkissjóð ekki með halla og greiða niður skuldir? Ef þetta er tekjuvandamál, hvar er hægt að bæta það ? Og ef það er útgjaldavandamál, hvar á að skera niður?