154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ísland ætlar greinilega að keyra sig út úr loftslagsvandanum. Ríkisstjórnin ætlar a.m.k. að stuðla að því að ná fram kolefnishlutleysi sínu og 1,5°C lækkun á meðalhita fyrir árið 2050 með því að treysta á eitt og aðeins eitt, einkabílinn. Við skulum hafa eitt á hreinu, það hefur aldrei verið til umhverfisvænn einkabíll og það verður aldrei neitt til sem heitir umhverfisvænn einkabíll. Orkuskipti í samgöngum eru og verða eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Breyting á eldsneytisgjöfum bílaflotans breyta alveg merkilega litlu þar um. Bílar hafa slæm áhrif á umhverfi, land, loftslag og heilsu fólks. Virðulegi forseti. Ef ekkert verður að gert munu um áramótin taka gildi stórfurðulegar og hreint út sagt galnar hugmyndir um afnám skattafsláttar vegna kaupa á einhverjum öflugustu umhverfisvænstu samgöngumátum sem til eru, sem eru reiðhjól og rafmagnsreiðhjól.

Hæstv. ráðherra ætlar ekki bara að fella niður ívilnanir til þess að kaupa slík farartæki heldur hefur hann hreint engin svör þegar hann er spurður um þessa óskiljanlegu forgangsröðun. Á þessu ári er áætlaður stuðningur við svokallaða hreinorkubíla um 11,6 milljarðar. Til samanburðar er heildarupphæð endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna hjóla, rafmagnsreiðhjóla og annarra slíkra farartækja, áætluð 520 milljónir. Það sér hver einstaklingur að það að fella niður þennan stuðning eru ekki bara óréttlátt orkuskipti, það vinnur beinlínis gegn loftslagsmarkmiðunum.

Virðulegur forseti. Alþingi verður að gera hæstv. ráðherra afturreka með þetta mál, þetta ömurlega mál. Með þessum breytingum er hann bara að vinna gegn helsta tækifæri Íslands til orkuskipta. Og þegar ráðherra gerir alvarleg mistök sem þessi er það Alþingis að leiðrétta þau. (Forseti hringir.) Ég legg til að þessu verði skutlað aftur heim á teikniborð.