154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Í þessum töluðu orðum er loftslagsráðstefnan COP28 að klárast og lítur ekki út fyrir að tímamótasamkomulag um útfösun jarðefnaeldsneytis muni nást. Að vísu kemur þetta ekki á óvart þar sem forseti ráðstefnunnar er einnig formaður ríkisolíufélags Sameinuðu arabísku furstadæmanna, en samt sem áður er þetta staðfesting á því að þótt heimurinn hafi skrifað undir Parísarsamkomulagið er ekki samstaða um mikilvægasta skrefið til þess að ná því og því er 1,5°C markmiðið í mikilli hættu.

COP28-ráðstefnan biður um lægsta samnefnara sem gildir um ríki sem búa ekki yfir þeim náttúruauðlindum sem Ísland býr yfir og því eigum við ekki að láta þessa niðurstöðu stöðva okkur í því að ýta undir metnað til að sýna fram á að útfösun jarðefnaeldsneytis er möguleg til þess að önnur ríki geti horft til okkar sem fyrirmyndar. Biðla ég nú til þingsins að falla ekki í meðvirkni út af metnaðarleysi lægsta samnefnara í loftslagsmálum og gefa frekar í og fylgja eftir þeim áætlunum sem voru í stjórnarsáttmálanum um að fara í orkuskipti.

Undanfarið hefur ríkisstjórnin ítrekað talað um mikilvægi þess að virkja í þágu orkuskipta. Sannarlega jákvætt markmið en aldrei er skýrt hvernig á að komast þangað. Á meðan við höfum ekki raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar heldur bara óskalista hagsmunaafla þá er ekkert sem tryggir að ný orka fari í græn verkefni. Það er því ekki hægt að tryggja að ný græn orka fari í orkuskipti, sem skapar vantraust til orkuskipta. Mikilvægt er að allir geti treyst því að orkan fari ekki í mengandi framleiðslu. Horfur framtíðarkynslóða eru í húfi og við getum ekki kynnt okkur endalaust sem fyrirmynd á alþjóðaloftslagsráðstefnum ef við stöndum enn með allt niður um okkur í bakherberginu eins og virðist vera núna.