154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Tölum aðeins áfram um orkumálin. Ég held að það fari ekki fram hjá neinum að það hefur ríkt ákveðin kyrrstaða í orkumálum síðustu tíu ár. Við eigum góð lög um rammaáætlun. Í þeim er gert ráð fyrir að rammaáætlun komi til Alþingis á fjögurra ára fresti og að mörkuð sé stefna um það hvað eigi að vernda og hvar eigi að virkja. En hvað hefur gerst á vakt Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins? Jú, það liðu sjö ár án þess að flokkarnir sem stjórna landinu kæmu sér saman um nýjan rammaáætlun. Afleiðingin af þessu afstöðuleysi löggjafans er kyrrstaða þegar kemur að undirbúningi og framkvæmdum. Við megum ekki við þeirri kyrrstöðu þegar leyfisveitinga- og skipulagsferlið er ekki skilvirkara en svo að það getur tekið meira en tíu, tólf ár að koma nýrri virkjun í gagnið.

Ofan á þetta bætist svo það að ríkisstjórninni hefur mistekist gersamlega að skapa sátt um það hvernig tekjurnar af orkuframleiðslu og tekjurnar af orkumannvirkjum eigi að skiptast. Við sjáum þetta t.d. með Búrfellslund sem Samfylkingin studdi. Þar hefur framkvæmdum verið frestað vegna þess að sveitarstjórninni á svæðinu finnst laga- og skattumgjörðin ósanngjörn. Og hún hefur rétt fyrir sér. Auðvitað ættu tekjurnar af orkumannvirkjum að skila sér í miklu ríkara mæli til nærsamfélagsins. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna sem hefur ríkt í orkumálum. Við þurfum að tryggja að sú orkuöflun sem ráðist er í renni til orkuskipta og til grænnar uppbyggingar. Við þurfum að ná eðlilegu jafnvægi milli náttúruverndar og orkunýtingar. Þetta er það sem leikreglur rammaáætlunar snúast um og við stjórnmálamenn þurfum að rísa undir þeirri ábyrgð.