154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Það er ábyrgðarhluti kjörinna fulltrúa að halda sig í raunheimum og við staðreyndir. Samfylkingin hefur ekki látið staðreyndir eða gögn flækjast fyrir sér í þeirri vegferð að sannfæra íslensku þjóðina um það að íslenska heilbrigðiskerfið standi á brauðfótum, sé fjársvelt og þjónustan fari versnandi þrátt fyrir að staðreyndir og alþjóðlegur samanburður bendi til hins gagnstæða. Í tíð ríkisstjórnarinnar hafa framlög til heilbrigðismála vaxið um 32% á föstu verðlagi — 32%. Það gerir um 80 milljarða viðbót í kerfi sem vissulega þurfti á auknu fjármagni að halda. Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 1 milljarði í varanlegt viðbótarfjármagn til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og stefnan er að tryggja að þær stofnanir geti sinnt mikilvægri grunnþjónustu í sínu umdæmi og létt álagi af Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Sú viðbót kemur í kjölfarið á því að grunnrekstur allra heilsugæslustöðva var styrktur um 2 milljarða ásamt því að gerð var varanleg viðbótarfjárveiting upp á 450 milljónir til heilbrigðisstofnana til endurheimtar og endurreisnar. Þetta eru allt staðreyndir sem endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar um að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Við erum á réttri leið og við höfum bætt verulega í en við vitum það líka að Róm var ekki byggð á einum degi. Vissulega má alltaf gera betur og alltaf viljum við meira fjármagn inn í velferðarkerfið okkar og því er afar ánægjulegt að heyra að Samfylkingin ætli ekki að láta á sér standa þar. En að halda því fram að kerfið sé fjársvelt og þjónustan fari sífellt versnandi á ekki við rök að styðjast. Fólkið sem vinnur dag og nótt í heilbrigðiskerfinu okkar á betra skilið. (Gripið fram í.)