154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í 8% verðbólgu og með stýrivexti upp á 9,25% er augljóst að hagur heimilanna versnar enn ef mótvægisaðgerðir eru ekki settar fram af hálfu stjórnvalda. Stjórnarmeirihlutinn felldi því miður tillögu Samfylkingarinnar um aukinn stuðning við heimilin í gegnum vaxta- og húsnæðisbótakerfið við 2. umræðu fjárlaga. En núna leggjum við til breytingartillögur um það allra minnsta sem gera ætti við þessar aðstæður; að vaxta-, húsnæðis- og barnabætur haldi verðgildi sínu á milli áranna 2023 og 2024 og að aðgerðir til að lækka leigu í almenna íbúðakerfinu verði settar fram þannig að ástandið versni ekki á milli ára líkt og stjórnarmeirihlutinn leggur til. Samfylkingin mun taka afstöðu til breytingartillagna sem hér eru til umræðu en við getum augljóslega ekki stutt frumvarpið óbreytt.