154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024. Um leið og ég kem hér upp til þess að segja að við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði styðjum þetta frumvarp, þá langar mig að nefna það að mér finnst það mikilvægt að hér er verið að leggja til mjög hógværar og skynsamlegar breytingar þegar kemur að verðlagsuppfærslum. Það er nákvæmlega það sem íslenskt samfélag þarf á að halda núna. Mig langar líka að benda á að það eru stór tíðindi í breytingartillögum við þetta mál og ríma við það sem verið er að gera í fjárlagafrumvarpinu en hér er ríkið að gefa eftir 6 milljarða í tekjuskatti einstaklinga og færa þá yfir til sveitarfélaganna sem geta þar með veitt meiri fjármuni í málefni fatlaðs fólks eins og þau hafa verið að kalla eftir um margra ára skeið. Þess vegna er þetta mikilvægt.