154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Vaxtabætur eru tekju- og eignatengdar bætur til þeirra sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna eigin húsnæðis. Viðmiðunarfjárhæðir stóðu í stað í mörg ár eftir breytingar sem tóku gildi árið 2009. Það ár stóð vaxtabótakerfið undir 20% vaxta og verðbóta heimila. Í ár er hlutfallið um 3%. Vaxtabótakerfið hefur verið látið grotna niður í tíð stjórnarflokkanna en kostnaður vegna húsnæðislána hefur vaxið umtalsvert og mörg heimili í miklum fjárhagsvanda fyrir vikið. Tillaga í kjarapakka Samfylkingarinnar um að styðja 10.000 heimili til viðbótar í gegnum vaxtabótakerfið hefur þegar verið felld. Hér er lagt til að vaxtabætur lækki ekki að raunvirði á milli ára og þannig sé komið í veg fyrir að 5.000 heimili detti út úr kerfinu á árinu 2024. Það er það allra minnsta, forseti, sem hægt er að gera. En stjórnarmeirihlutinn vill að staða heimilanna versni á milli ára. Það er fréttin.