154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[16:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér erum við að gera margt, m.a. að bregðast við ákalli ungra bænda um stuðning og ýmislegt fleira eins og hefð er í frumvarpi til fjáraukalaga. En mig langar að nota tækifærið við þessa atkvæðagreiðslu og draga fram, þó að það sé ekki breytingartillaga við frumvarpið heldur inni í fjáraukalagafrumvarpinu sjálfu, að þar er tillaga um eingreiðslu til öryrkja upp á rúmar 66.000 kr. sem eru til viðbótar við hefðbundna orlofs- og desemberuppbót. Þannig að þó svo að það sé ekki mál sem við erum að fara að greiða atkvæði um hérna sem breytingartillögu þá er það eitt af því sem er inni í þessu máli og það skiptir mjög miklu máli.