154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

niðurstöður PISA-könnunar.

[10:41]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fram fari umræða allra þeirra aðila sem mynda íslenskt menntakerfi um niðurstöður PISA og hvernig við ætlum að bregðast við. Þegar kemur að samræmdum prófum þá óskaði ég hér á Alþingi eftir heimild til þess að fresta samræmdum prófum, enda hafði fyrirlögn þeirra mistekist vegna tæknilegra örðugleika og einnig vegna þess að við ætluðum okkur að móta og þróa nýtt matskerfi gagnvart skólunum, matsferil sem er hugsaður þannig að hann sé verkfæri sem hægt er að nota með reglubundnum hætti af kennurum til að aðstoða við kennslu í skólastundum. En samhliða því myndum við líka teikna upp með hvaða hætti við viljum sjá samræmt mat lagt fyrir í skólum. Þessi vinna er í fullum gangi og við reiknum með því að snemma á nýju ári getum við kynnt það hvernig við sjáum þetta fyrir okkur og í framhaldi sé þá hægt að koma með lagabreytingar inn í þingið til þess að fylgja því eftir. Hitt vil ég þó segja að ég held að það sé varhugavert þegar við ræðum niðurstöður PISA að halda því fram að eitthvað eitt muni gjörbreyta niðurstöðum í PISA. Ég held þetta sé fjölþættara en svo. En samræmt mat á skólum, nemendum og öðru er einn þessara þátta og þess vegna erum við með þessa vinnu í gangi og ég reikna með því að geta kynnt það á nýju ári.