154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

niðurstöður PISA-könnunar.

[10:44]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er mjög fylgjandi því að skólar, sveitarfélög og aðrir þeir sem byggja íslenskt menntakerfi fái þau gögn sem fyrir liggja til að vinna úr sínum málum, sjá hvað gengur vel, hvar þarf að bregðast við o.s.frv. (Gripið fram í.) Þetta er eitt af því sem við munum fara yfir. Við erum ekki bara með PISA-könnunina, það er nýleg QUINT-rannsókn sem er komin fram. Við erum með niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem tengist líka skólum að ákveðnu leyti, þannig að við erum að fara yfir það með hvaða hætti við sjáum fyrir okkur að birta þessar upplýsingar og senda einstaka sveitarfélögum og skólum. En hins vegar er það svo að OECD sjálft mælir gegn því að upplýsingar PISA séu sendar á einstakra skóla vegna þess að þetta sé ekki besti mælikvarðinn til þess að mæla einstaka skóla. Það er frá OECD komið og þess vegna hygg ég að undanfarnar PISA-kannanir hafi ekki verið brotnar niður og sendar á skóla. (Forseti hringir.) En sá sem hér stendur er jákvæður fyrir slíku og það er það sem við erum að skoða. En OECD (Forseti hringir.) mælir ekki með því. Eitt af því sem stjórnvöld undirgangast er (Forseti hringir.) að skrifa undir að við notum þetta ekki í þeim tilgangi að mæla einstakra skóla vegna þess að (Forseti hringir.) prófið er ekki hugsað þannig að það gefi raunsæja mynd á samanburð milli skóla heldur er þetta mat (Forseti hringir.) á landi í heild.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að í óundirbúnum fyrirspurnum er ræðutími tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu.)