154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

niðurstöður PISA-könnunarinnar og umbætur í menntakerfinu.

[11:07]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað Alþingi sem breytir lögum en ekki ráðherra, það er með þeim hætti. Ég vil segja að ég hef lagt mig fram í öllum mínum störfum sem ráðherra um að eiga sem best samstarf við menntamálanefnd Alþingis og við þingmenn allra flokka um breytingar á stórum málum. Ég held að það hafi skilað okkur vel fram á veginn í aðgerðum sem við höfum verið að leggja fyrir sem eru m.a. breytingar á Menntamálastofnun, undirbúningur á stórum breytingum í skólaþjónustu, námsgagnaútgáfa sem við erum að fara að skoða endurbætur á og fleiri atriði. Þegar kemur að breytingum á því hvernig við vinnum aðalnámskrá þá er sá sem hér stendur tilbúinn í samtal um að gera breytingar á því. En það er líka þannig að jafnvel þó að menntamál séu hápólitísk mál þá þurfum við að hafa vísindin, við þurfum að fá ólíka aðila þar að borðinu vegna þess að við sem erum í pólitíkinni, og þá tel ég mig þar á meðal, (Forseti hringir.) höfum oft tilhneigingu til þess að halda að við getum gert breytingar á miklu skemmri tíma en mögulegt er. (Forseti hringir.) Ég hefði áhyggjur af því ef pólitíkin væri allt of mikið inni í þessu, af því að við viljum alltaf ná fram breytingum á einu ári, tveimur árum (Forseti hringir.) eða jafnvel styttri tíma (Gripið fram í.) en breytingar í menntakerfinu taka lengri tíma.