154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:16]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að bregðast hratt við beiðni okkar í Samfylkingunni um að gefa Alþingi munnlega skýrslu um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Það er rúmur mánuður síðan við samþykktum hér inni þingsályktun þar sem Alþingi kallaði eftir vopnahléi án tafar á Gaza-svæðinu og þar sem öll ofbeldisverk gegn almennum borgurum voru fordæmd. Síðustu vikur hafa ríflega 18.000 Palestínumenn verið drepnir, þar af um 8.000 börn. Fólk hefst nú við í rústum, lifir við matar- og vatnsskort og við fylgjumst með fréttum um áframhaldandi árásir á þegar óstarfhæf sjúkrahús, á heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk alþjóðlegra hjálparsamtaka og blaðamenn. Aðstöðumunurinn í þessum átökum er ótrúlegur, herra forseti. Það er ekkert sem réttlætir þessar árásir. Almenningur á Íslandi fylgist vel með, fólk er vel upplýst en um leið meðvitað um vanmátt okkar til að stöðva þessar hryllilegu hernaðaraðgerðir. Fólk hefur hins vegar kallað eftir umræðu og veltir eðlilega fyrir sér hvað Ísland getur gert. Hvernig getum við beitt okkur af þunga á alþjóðlegum vettvangi í samfloti með öðrum ríkjum? Því að þótt við séum smáþjóð þá höfum við svo sannarlega beitt okkur áður á stóra sviðinu, líkt og utanríkisráðherra benti hér á áðan.

Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn gert til að fylgja ályktun Alþingis eftir til að halda ákalli Íslands á lofti og vinna að þessum markmiðum? Hæstv. utanríkisráðherra fór ágætlega yfir þetta hér áðan og fyrr í vikunni og ég vil segja að ríkisstjórninni hefur tekist að samstilla málflutninginn í þessu máli og það er mjög gott. Sömuleiðis hefur samstaðan um að kalla eftir tafarlausu vopnahléi aukist í alþjóðasamfélaginu að undanförnu sem sést t.d. á því að í fyrrakvöld greiddu 153 ríki atkvæði með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Við verðum að trúa því, forseti, að það sé von um frið. Palestínska þjóðin þarf á því að halda og ég tel það vera einu von Ísraelsmanna um öryggi til lengri tíma. Hún hlýtur að byggja á friði og svo samstilltri baráttu fyrir tveggja ríkja lausn þó að það kunni að virðast fjarlægur draumur á þessum tímapunkti.

Í framhaldi af fyrirspurn minni til hæstv. utanríkisráðherra fyrr í vikunni vil ég spyrja spurninga um framhaldið sem ég veit að brenna á fjölda fólks hér á landi: Hefur ríkisstjórnin rætt hvort Ísland tæki þátt í samfloti, ekki einhliða heldur í samfloti, fleiri ríkja um beitingu einhvers konar refsiaðgerða eða viðskiptaþvingana til að knýja á um vopnahlé? Hefur ríkisstjórnin rætt möguleikana á að Ísland taki frumkvæði í umræðu um þetta mál? Hefur ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra þegar beitt sér í samtali við bandalagsríki okkar um aðgerðir af slíkum toga? Nú er ég kannski sérstaklega að hugsa í þessu samhengi um fundinn sem hæstv. utanríkisráðherra ræddi að myndi eiga sér stað í Noregi á morgun, hvort það komi til greina að Ísland beiti sér fyrir því að taka til umræðna og vangaveltna um viðskiptaþvinganir í samfloti með bandalagsþjóðum okkar, af því að við erum alveg meðvituð um það í Samfylkingunni að þetta gerum við ekki ein.