154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:23]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að beina umræðunni að þessu grafalvarlega máli, þessu sorglega, hörmulega ástandi. Ég held að fólkið í landinu þurfi að vera með tilfinningu fyrir því að við látum okkur þetta auðvitað varða og tel að við höfum gengið til góðs með þeim yfirlýsingum sem við höfum sent frá okkur að frumkvæði utanríkismálanefndar sem Alþingi tók til samþykktar fyrir skemmstu. Ég held að það sé ágætt að við viðurkennum líka að það var kannski mikil bjartsýni, eða það var kannski ekkert sérlega góð hugmynd að ímynda sér að það væri hægt að bjóða heilli þjóð að verða einhvers konar þjóð við hliðina á annarri þjóð hvað sem 1.200 ára sögu leið. Okkar ágæti sendiherra í Washington, Thor Thors, hefur verið bendlaður við þetta, sem var eflaust töluverð bjartsýni á sínum tíma að bera fram og reyndist ekki sem skyldi.

En það er líka mikil bjartsýni sem skín í gegnum öll þau hundruð pósta sem að okkur þingmönnum beinast um að það myndi breyta mjög miklu að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael eða beita viðskiptaþvingunum eða einhverju slíku. Við erum ekki í mikilli aðstöðu til að gera neitt annað en að vera kannski hugsanlega einhvers konar fyrirmynd í því að vera friðarþjóð, herlaus þjóð og standa bara með réttlætinu og góðmennskunni. Það eina sem við getum gert á þessum tímapunkti er að sýna mannúð, senda hjálp eftir því sem við getum, hvað sem getur orðið best að gagni því fólki sem er í þessum hörmulegu aðstæðum, og minna kannski á það líka að við búum hér að dálítið merkilegum hlut; heimsfrægri friðarsúlu úti í Viðey. Vildi einhver þiggja friðarsúluna sem vettvang friðarviðræðna þá teldi ég það vera hugmynd sem við gætum boðið fram ásamt mannúðaraðstoð af hverjum þeim toga sem verða vill. Sameinuðu þjóðirnar, sem voru stofnaðar eftir seinni heimsstyrjöldina til þess einmitt að sporna við stríðsátökum af þessum toga, eru því miður ekki sá vettvangur sem við héldum að gæti orðið að gagni í þeim efnum. Við þurfum að finna nýjar leiðir. Af auðmýkt bjóðum fram okkar hjálp, þá litlu aðstoð, táknrænu eða veraldarlegu, sem til boða stendur.