154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:47]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Mann setur auðvitað hljóðan við fréttaflutning af þeim voðaverkum sem framin hafa verið á Gaza-svæðinu undanfarna tvo mánuði. Nú hafa ríflega 18.000 Palestínumenn verið drepnir á Gaza og fjöldi barna þar af nálgast 8.000. Sjúkrahús, skólar, sjúkrabílar, neyðarskýli alþjóðlegra hjálparsamtaka verða fyrir ítrekuðum árásum á Gaza og þar er enginn óhultur. Það er enginn öruggur staður.

Þrátt fyrir að við njótum þess að búa við frið og öryggi fjarri Gaza þá eru þessir atburðir þó ekki lengra frá okkur en svo að þeir hafa bein áhrif á talsvert stóran hóp Palestínumanna sem hér búa í okkar samfélagi, fólk sem hefur misst ástvini og ættingja undanfarnar vikur, fólk sem óttast um líf foreldra, maka og barna sem eru enn á Gaza, fólk sem veit ekkert um afdrif þeirra sem standa þeim næst.

Frú forseti. Nú skilst mér að um 100 einstaklingar sem staddir eru á Gaza hafi nú þegar fengið samþykkta umsókn um svokallaða fjöldasameiningu við fjölskyldumeðlimi á Íslandi, en það dugar skammt þar sem fólkið situr fast inni á svæðinu, kemst ekki yfir landamærin til Egyptalands til að sækja ferðaskilríki og koma sér heim til fjölskyldu sinnar á Íslandi. Á undanförnum vikum hefur þrátt fyrir allt hundruðum ef ekki þúsundum einstaklinga verið komið út af svæðinu fyrir tilstuðlan nágranna og samstarfsríkja okkar og íslensk stjórnvöld standa vissulega ekki ein í aðgerðum sem þessum. En á tímum eins og þessum reynir hins vegar verulega á utanríkisþjónustu okkar. Því langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort og þá hvenær ráðuneytið hóf vinnu við að tryggja þessu fólki farsæla för eða endi á sínum málum og í hverju sú vinna sé falin.