154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðan samhljóm hér í dag. Þó að raddirnar séu svo sem ekki allar í einum kór þá er góður samhljómur engu að síður um það sem mestu máli skiptir, sem er það að við gerum það sem í okkar valdi stendur til að tala fyrir því að stríðsátökum linni og að unnið verði að framtíðarlausn. Manni verður hugsað til þess þegar maður stendur hér uppi á árinu 2023 hversu sterka von þeir sem á sínum tíma unnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að tveggja ríkja lausn hljóti að hafa borið í brjósti um að átökin myndu ekki vera áfram næstu öldina. En því miður erum við enn stödd á þessum stað og bæði eru atburðir sem gerðust 7. október í Ísrael fordæmalausir í áratugi hvað mannfall snertir og sömuleiðis það sem er að gerast á Gaza í dag. Það er auðvitað hörmulegt.

Hér er velt upp nokkrum spurningum sem ég tel mig nú hafa komið að langmestu leyti inn á. Varðandi viðskiptaþvinganir þá tel ég að það sem ríki eru að beita sér fyrir núna gangi miklu lengra en allar viðskiptaþvinganir myndu nokkurn tímann gera. Það er verið að fara beint inn í það að stöðva átökin sem ég tel að sé rétt forgangsatriði. Ég ætla sömuleiðis að segja að ég hafna því að við höfum ekki beitt okkur með öllum þeim ráðum sem við höfum að alþjóðalögum. Ég vil biðja menn aðeins um að hugleiða að jafnvel þótt okkur þyki Sameinuðu þjóðirnar ekki skila þeim árangri sem við berum von í brjósti um að þær geti gert þá er samt gríðarlega mikilvægt að hafa þennan vettvang. Án hans þá stæðum við bara hér ein að reyna að tala út í heiminn og ná áheyrn. (Forseti hringir.) Þetta skiptir máli.

Varðandi fjölskyldusameiningar þá vil ég bara segja það (Forseti hringir.) að þær fengu forgang hjá Útlendingastofnun. Það eru ekki fordæmi fyrir því að fjölskyldur séu (Forseti hringir.) sóttar til annarra landa en við erum að skoða hvað aðrir eru að gera í þessum efnum og munum áfram vinna í þeim málum.