154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst svo áhugavert að hvergi í þingsályktunartillögunni eða í áliti meiri hluta er minnst á grunnrannsóknir, sérstaklega þegar á að efla í rauninni það sem grunnrannsóknir byggja grunninn að. Á undanförnum árum höfum við séð í gegnum úthlutanir Rannsóknasjóðs Rannís að mjög lágt hlutfall þeirra verkefna sem hafa komið þangað inn og hafa hlotið hæstu einkunn hafa fengið fjármögnun. Það skýtur dálítið skökku við að lækka fjárframlögin til þessara sjóða sem fjármagna grunnrannsóknir á sama tíma og það er verið að leggja fram þingsályktunartillögu um að efla þekkingarsamfélagið. Mér finnst það mjög áhugavert því að það er ekki hægt að líta á þessa vanfjármögnun grunnrannsókna sem nokkuð annað heldur en glötuð tækifæri. Þær hugmyndir sem koma þarna inn er búið að meta af helstu sérfræðingum sem góðar hugmyndir sem geta orðið að mjög áhugaverðum hlutum í framtíðinni. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig við eigum að glíma við þetta því að það er eitt að segja og skrifa og kvitta undir þingsályktunartillögu um meiri og betri þekkingu og síðan er hitt að fjármagna það sem lagt er til. Við höfum lent í dálitlum fjármögnunarvanda hérna á Alþingi með hinar ýmsu tillögur og núna þegar við erum að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár þá virðist ekki alveg vera samhljómur á milli þessarar tillögu og fjárlaga fyrir næsta ár.