154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það hljómar bara undarlega að segjast vera að stefna enn hærra með minna fjármagni á næsta ári heldur en var áður, það fer ekki alveg saman. Annað sem mig langaði til að velta upp með hv. formanni nefndarinnar er fjarnámið annars vegar og hins vegar markmið um hlutfall karla í háskólanámi. Hlutfall karla í háskólanámi hefur verið að vaxa sem hlutfall af mannfjölda á undanförnum áratugum í rauninni, en hlutfall kvenna enn þá meira þannig að maður veltir fyrir sér: Er ástæða til að hafa áhyggjur af aukningu karla í háskólanámi eða gríðarlegri aukningu kvenna eða bara er hvort tveggja í lagi þegar allt kemur til alls? Einnig með fjarnám, það er talað um jöfn tækifæri en fjarnám er ekki alveg það sama og staðnám. Kennsluaðferðir eru flóknar og ýmislegt svoleiðis þar á bak við, (Forseti hringir.) allt í lagi, og það veitir aukin tækifæri, vissulega, en það veitir ekki jöfn tækifæri. Við skulum hafa það í huga.