154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel einmitt að til að efla þekkingarsamfélag á Íslandi þá eigi listir að gegna lykilhlutverki og ég tel einmitt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að í tæknigeiranum, við sköpun á leikjum og öðru, þá séu listir grundvallaratriði, hvort sem er heimasíðugerð, tölvuleikjagerð eða annað. Ég hefði viljað fá það hugtak inn í plaggið sjálft, sjálfa aðgerðaáætlunina, eins og kemur fram í umsögn Listaháskólans með vísan til mikilvægis lista og þess sköpunarkrafts sem er í listum á Íslandi, hvort sem það er tónlist eða bókmenntir eða aðrar listir. Mig langar að nota seinna andsvar til er að spyrja um hugvitsmenn og frumkvöðla. Núna erum við að ræða aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi. Þurfa ekki allir að vera inni í því samfélagi og taka þá líka tillit til sjónarmiða hugvitsfólks og frumkvöðla? Það er líka til frumkvöðlastarf og nýsköpun sem er ekki á háskólastigi, (Forseti hringir.) líka hjá venjulegu fólki. Ég get tekið sem dæmi Sigmundsgálgann og fleira. Hefði ekki átt að taka betur tillit til þess í plagginu?