154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við erum hér með þingsályktunartillögu frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um þekkingarsamfélagið á Íslandi og það eru þessir meginþættir, eins og hv. þingmaður kom inn á, þetta eru þrír kaflar. Það eru aðgerðir til að styðja markmið í háskóla- og vísindastarfi, það eru aðgerðir til að styðja við markmið í nýsköpun og hugverkaiðnaði og það eru aðgerðir sem styðja við markmið í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi. Það er það sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á. En ef hv. þingmaður er að vísa í aðra hluta menntakerfisins, leikskólakerfið, grunnskólakerfið, framhaldsskólakerfið og þá iðn- og tæknimenntun, þá held ég að það sé í rauninni bara annað umræðuefni. Það er mjög mikilvægt fyrir háskólasamfélagið að aðrir þættir menntunar séu líka öflugir. Við hv. þingmaður höfum aðeins tekið umræðuna í ljósi PISA og um stöðu grunnskólanna og mikilvægi leikskólakerfisins og við munum halda áfram að taka þá umræðu, það er alveg á hreinu, en hér erum við auðvitað að fjalla um þá þætti sem hér eru undir.

Ég ætla að hrósa þeirri áætlun sem hér er undir, ekki síst vegna þess að mér finnst hún ótrúlega skýr. Það er nefnilega stundum þannig að við erum hér á Alþingi að fjalla um einhverja stefnumörkun sem getur verið ofboðslega mikill og langur texti um alls konar þætti því að þegar við förum að setjast yfir svona þætti er alltaf hægt að tína eitthvað nýtt til. Mér finnst þetta mjög skýr aðgerðaáætlun með tiltölulega skýr markmið og ég held að það sé hægt að ná þessu fram sem hér er og þá einmitt í ljósi þess að það er svona skýrt og það er verið að fókusera á þá þætti sem hér eru undir. En það segir auðvitað ekkert um mikilvægi leikskólastigsins eða grunnskólastigsins eða aðgerðir sem við eigum að fara í þar. Það getum við örugglega sammælst um í einhvers konar annars konar þingsályktunum eða jafnframt lögum eða í annarri umræðu við þá líka annan ráðherra.