154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025. 1. minni hluti styður almennt markmið þingsályktunartillögunnar og er sammála þeim sjónarmiðum sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans. Hins vegar leggur fyrsti minni hluti til ákveðnar breytingar með hliðsjón af umsögnum sem bárust nefndinni.

Mig langaði aðeins að fara yfir nokkur atriði í nefndaráliti meiri hlutans sem ég tel vert að vekja athygli á. Þar kemur fram að óhjákvæmilegt sé að líta það alvarlegum augum að hlutfall ungra karla í háskólanámi er miklu lægra en meðal kvenna. Á sama tíma eru einnig hlutfallslega færri ungir Íslendingar með háskólagráður en í samanburðarlöndunum. Finna verði leiðir til að auka aðsókn ungra karla í háskólanám og um leið fjölga ungu fólki sem lýkur háskólanámi. Ég tel að þetta sé sameiginlegt verkefni okkar allra og stjórnvalda sem þurfa að stuðla að þessu, bæði að fjölga ungu fólki í háskólanámi og auka hlutfall karla. Ég tel að það sé ekki síst mjög mikilvægt hvað þetta varðar að líta til þess að þetta er fólk á barneignaraldri, hvað kvenfólk varðar að það geti eignast börn á meðan það er í háskólanámi og fengið nægilegan stuðning hvað varðar leikskóla og barnaheimili og fæðingarorlof og annað slíkt og sama á við um karla að sjálfsögðu hvað það varðar. Einnig þarf að fara í virkilegt átak. Það er algerlega óásættanlegt að það sé 70/30-skipting hvað þetta varðar.

Mig langar einnig að tala um það sem lýtur að fjarnámi í áliti meiri hlutans. Þar er vísað til umsagnar Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu þar sem bent er á að setja verði skýrar fram hvernig standa eigi að eflingu fjarnáms og aðgerðir til að ná því markmiði, svo sem varðandi fyrirkomulag kennslu og fjarnámskerfa, stuðning við rannsóknarnema og tæknileg mál innan háskólanna. Aukið aðgengi að fjarnámi tengist jafnframt meginmarkmiði tillögunnar í fjarskiptum, upplýsingatækni, netöryggi og að tengja byggðir landsins og Ísland við umheiminn og að innviðir og þjónusta mæti þörfum almennings og atvinnulífs. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt atriði að ræða og einnig tek ég undir með meiri hlutanum að aukið aðgengi að fjarnámi í ólíkum fögum sé ein öflugasta leiðin til að jafna aðgengi mismunandi hópa að háskólanámi og efla þannig allar byggðir landsins. Þetta er mikilvægt atriði, mjög mikilvægt að allir eigi jafnan aðgang að háskólanámi í gegnum fjarnám. En þetta er líka eitt stórt ef. Það er mjög mikilvægt að við stöndum líka vörð um staðnám. Ég hef heyrt það aðeins frá Háskólanum á Akureyri að staðnámið, ég sé segi ekki að það sé á fallanda fæti en það hafi minnkað vegna þess að fjarnám sé sífellt að aukast. Staðnámi á Bifröst var hætt árið 2019, ef ég man rétt, og það er eingöngu byggt á fjarnámi. Ég er nú háskólamenntaður og lærði á Íslandi, í Belgíu og Bandaríkjunum. Ég man svo vel þegar ég var í Belgíu og Bandaríkjunum að það var bara sagt við okkur að það að vera í háskóla, að vera hér á kampusnum, vera í skólanum, væri líka hluti af náminu, að við kynntumst öðrum nemendum, kynntumst prófessorunum og því samfélagi sem háskólasamfélagið á staðnum er. Þannig að þó að við horfum mikið á fjarnám hvað þetta varðar, og ég hef hér lýst, sem er mjög mikilvægt, þá megum við ekki horfa fram hjá því að við verðum að horfa líka á staðnám. Það á ekki síst við háskóla á landsbyggðinni eins og á Akureyri, að þar sé öflugt staðnám. Akureyrarbær hefur lengi verið mikill skólabær með frábæra menntastofnun sem er Menntaskólinn á Akureyri og svo Verkmenntaskólinn líka en við verðum að horfa til þess að staðnámið er líka grundvallaratriði og það á líka við um háskóla eins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

Það er annað atriði sem mig langar að koma inn á og það lýtur að umsögn Byggðastofnunar og ábendingu Byggðastofnunar hvað varðar greiningu á jöfnum tækifærum í nýsköpunarverkefnum og fjármögnun þeirra. Það er mikilvægt að efla nýsköpunarstarf á landsbyggðinni samhliða öðrum markmiðum tillögunnar. Hér er mjög mikilvægt, og hér koma sóknaráætlanir landshlutanna og atvinnufulltrúarnir til skjalanna, að við verðum að styðja við bakið á þeim sprotum sem vakna á landsbyggðinni. Þetta er byggðamál og mjög mikilvægt að við eflum mannauð líka og þekkingarsamfélag á landsbyggðinni.

Ég tek undir það sem meiri hlutinn segir, það er mikilvægt að stofnanir líkt og Íslandsstofa og Rannís eigi verkefnabundið samstarf við samstarfsaðila í öllum landshlutum til að mögulegt sé að ná þeim markmiðum sem þeim er ætlað að vinna framgang á hverjum tíma. Hér er átt við sóknaráætlanir í landshlutunum og þau verkefni sem þar eru.

Þingsályktunartillagan sem hér er til umræðu er þrír kaflar. Það er framtíðarsýn, meginmarkmið og stefnumarkandi aðgerðir. Vissulega er framtíðarsýnin nokkuð góð, hugvitið er hin ótakmarkaða auðlind og á að verða grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Sjónum verði beint að sjálfbærri þróun atvinnulífs og samfélags með þekkingu og hugvit að leiðarljósi í stað þess að byggja á takmörkuðum auðlindum sem hafa í gegnum tíðina valdið sveiflukenndu efnahagsástandi. Hérna er markmið til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi þar sem við erum að reyna að komast úr auðlindahagkerfi yfir í þekkingarhagkerfi og það er gríðarlega mikilvægt að okkur takist það, að við séum þátttakendur af fullum krafti í upplýsingabyltingunni, fjórðu iðnbyltingunni, því sem nýjast er að gerast, t.d. gervigreind.

Kaflinn um stefnumótandi aðgerðir er það sem skiptir máli á endanum, hvernig við ætlum að koma þessum aðgerðum sem þar eru taldar fram í framkvæmd. Þar eru aðgerðir sem styðja við markmið í háskóla- og vísindastarfi, aðgerðir sem styðja við markmið í nýsköpun og hugverkaiðnaði og aðgerðir sem styðja við markmið í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi.

Í fyrsta kafla þingsályktunartillögunnar, framtíðarsýn, segir að hugvitið skuli vera grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Þetta er verðugt markmið og 1. minni hluti tekur undir þessa framtíðarsýn. Það samræmist markmiðinu að hvetja til nýsköpunar meðal almennings og stuðnings við hugmyndir á frumstigum, t.d. með því að styrkja hugvit í landinu, kynna árangur hugvitsmanna hérlendis og erlendis og með því að styðja við fræðslu á sviði nýsköpunar.

Meginmarkmiði stefnumótandi aðgerða um þekkingarsamfélag á Íslandi er lýst í öðrum kafla. Þar kemur fram að aðgerðir skuli byggjast á þremur meginsviðum sem eru háskóla- og vísindastarf, nýsköpun og hugverkaiðnaður og fjarskipti, upplýsingatækni og netöryggi. Nýsköpun er hér grundvallaratriði þegar talað er um hugvit, um að hugvit verði grunnur að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar, samanber meginmarkmið tillögunnar, einnig þegar litið er til stefnumótandi aðgerða til ársins 2025 til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi líkt og gert er í inngangsorðum tillögunnar.

Þegar efla á þekkingarsamfélag er mikilvægt að það nái til allra í samfélaginu og að stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi hafi ætíð inngildingu að leiðarljósi en ekki útilokun einhverra hópa og við verðum að horfa á inngildingu, eða það sem á ensku er kallað „inclusion“. Við getum ekki útilokað einhverja hópa. Það gengur ekki, við erum allt of fámenn þjóð til þess. Þar horfum við fyrst og fremst á nýsköpun og hugverk.

Í öðrum kafla er ekki minnst á verkþekkingu. Háskóla- og vísindastarf er mikilvægt þegar kemur að nýsköpun. Hugmyndir spretta einnig upp utan þessara sviða og frá hugviti og frumkvöðlastarfi sem byggist á verkþekkingu. Það eru líka hugmyndir fyrir utan háskólasamfélagið sem skipta miklu máli. Það er oft drifkrafturinn. Það er verkþekking í landinu og það koma nýjar hugmyndir. Einn félagi minn sagði það varðandi nýsköpun, og að það sé verið að teikna allt í Evrópu og senda til Kína þar sem hlutirnir eru framleiddir og þar sem verkþekkingin verður til, að þar verði nýsköpunin á endanum til. Það er ekki nóg að hafa verksmiðjurnar í Kína og teikna allt hér, í Svíþjóð, á Norðurlöndunum, á Íslandi, í Evrópu og það sé allt gert þar. Verkþekkingin er þar sem þekkingin er.

Í þriðja kafla tillögunnar kemur fram að til þess að ná fram markmiðum um eflingu þekkingarsamfélags á Íslandi þurfum við að vinna í samstarfi við hagaðila og endurskoða aðgerðir árlega í tengslum við undirbúning fjármálaáætlunar og fjárlaga. 1. minni hluti telur að í ljósi þessa markmiðs ætti að taka tillit til og hafa samráð við helstu hagaðila þekkingarsamfélags, svo sem Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN, félag kvenna í nýsköpun, þegar kemur að eflingu þekkingarsamfélagsins á Íslandi. Fámenn þjóð þarf á öllum sínum mannauði, hugviti og nýsköpun að halda þegar kemur að eflingu þekkingarsamfélagsins og þar þarf að vera rými fyrir alla.

Fyrsti minni hluti telur að okkur beri að líta til mikilvægis lista í þeirri framtíðarsýn sem við erum að móta til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi og að hugvitið, hin takmarkaða auðlind, verði grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Listir eru stór hluti íslensks samfélags og íslensk list hefur vakið athygli víða um heim, sérstaklega tónlist og bókmenntir, bæði fornar og nýjar. Á síðastliðnum árum hefur hróður íslenskra sakamálabókmennta farið víða. Einnig má vísa til kvikmyndalistarinnar sem vakið hefur athygli víða og býr yfir miklum möguleikum. 1. minni hluti telur því mikilvægt að listir séu nefndar sérstaklega í þessum stefnumótandi aðgerðum þar sem hlutverk lista er afar mikilvægur þáttur í eflingu þekkingarsamfélagsins. Tekur 1. minni hluti því undir þau sjónarmið sem koma fram í umsögn Listaháskóla Íslands.

Fyrsti minni hluti tekur einnig undir með Listaháskóla Íslands um að leggja ætti áherslu á ótvírætt sjálfstætt vægi listanna en ekki einungis listir sem verkfæri í samhengi við kennslu raungreina þar sem A-ið í STEAM vísar til aðferðafræði lista í kennslu STEM-greina, þ.e. vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði. Ég tek undir það sem segir í umsögn Listaháskólans, við verðum að horfa sjálfstætt á listirnar. Þar er raunverulega mikill mannauður eins og hefur komið fram og frumkvöðlastarf sem þar er unnið, útflutningur á tónlist og öðrum hugmyndum sem eru á sviði lista er algerlega til fyrirmyndar og hefur eflt hróður Íslands alls staðar í heiminum.

Með þetta markmið í huga er 1. minni hluti sammála þeim sjónarmiðum að það þurfi að líta til fleiri þátta þegar kemur að menntun, uppbyggingu þverfaglegs náms og aukins vægis listgreina í samhengi við kennslu STEM-greina. Mikilvægt er að hlutfall STEM-menntaðra hækki hér á landi til að mögulegt sé að mæta þeim gríðarlega miklu tæknibreytingum sem fyrirséð er að eigi sér stað á næstu árum og hafa átt sér stað á undanförnum árum. Ég tekið það dæmi að farsíminn okkar kom fyrst fram á sjónarsviðið 2007 eða 2008, rétt rúmlega 15 ára gamalt tæki.

Ísland verður að vera fullur þátttakandi í upplýsingabyltingunni og þeirri byltingu sem mun eiga sér stað með framkomu gervigreindar. Hér verðum við einnig að líta til stöðu íslenskunnar í umróti þessarar miklu byltingar sem kölluð hefur verið fjórða iðnbyltingin og vísar til hinna gríðarlegu tækniframfara síðastliðinna ára og þeirra sem eru í vændum. Hér er aðallega átt við gervigreind, róbótatækni, internet hlutanna, sjálfvirknivæðingu og nú síðast gervigreind og fleira sem mun líklega valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu árum og áratugum. Ljóst er að þverfræðileg kennsla raungreina með skapandi aðferðafræði lista er til góðs en einnig þarf að leggja áherslu á að auka og styðja við listir og menntun á fræðasviði lista. Í því skyni eru lagðar til ákveðnar breytingar þar sem tekið verði mið af listum sem sjálfstæðri menntunargrein í greinum þingsályktunartillögunnar.

Með hliðsjón af ofangreindu leggur 1. minni hluti til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Ég vísa hér til breytinga sem þar koma fram, að í fyrsta kafla, sem er framtíðarsýnin, komi á eftir orðinu „þekkingu“: listir. Einnig bætist við nýr málsliður sem er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Í samfélaginu verði hvatt til nýtingar hugvits og árangur hugvitsmanna kynntur almenningi. Stutt verði við fræðslu á sviði nýsköpunar og hlúð að vænlegum hugmyndum á fyrstu stigum.“

Hér er verið að taka undir umsögn frá Félagi hugvitsmanna og frumkvöðla um að þeir verði hluti af því þekkingarsamfélagi sem hér á efla en þeim hefur fundist þeir vera ansi út undan hvað það varðar. Við verðum sem fámenn þjóð, eins og áður segir, að taka tillit til allra. Hvað varðar aðrar breytingar í öðrum kafla þá vísa ég til þess sem segir í nefndaráliti með breytingartillögu og þar er raunverulega verið að segja það að orðið listir komi fram í öðrum kafla og það er vísað nákvæmlega í það að á eftir orðinu „nýsköpun“ í 1. málslið 2. töluliðar komi: listum. Sama í 2. málslið 2. töluliðar o.s.frv.

Ég tel mjög mikilvægt að við horfum til þess sem við höfum þegar gert gott í þekkingarsamfélaginu og ótvíræður hluti af því þekkingarsamfélagi eru listgreinar og sú listsköpun sem átt hefur sér stað. Á því verðum við að byggja, því frumkvöðlastarfi og tilraunastarfi sem hefur átt sér stað, t.d. í tónlist. Það er nákvæmlega sá hugsunarháttur sem þar er sem við eigum líka að nota í öðrum greinum, STEM-greinum og þekkingarsamfélaginu. Við getum þá byggt á því til útflutnings, eins og t.d. í tölvuleikjagerð, vefsíðugerð og hvað sem það er sem tæknin getur boðið okkur upp á. Tæknin er bara tæki til sköpunar.