154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Dagbjört Hákonardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar í fyrirliggjandi tillögu um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi. Heilt yfir finnst okkur sem undir nefndarálitið rita, mér og hv. þm. Halldóru Mogensen, það hafa verið samstaða meðal hagaðila og umsagnaraðila sem komu á fund allsherjar- og menntamálanefndar um að það sé ánægjulegt að stefna að því að efla þekkingarsamfélagið. Það ætti að vera mjög erfitt í sjálfu sér að vera á móti því og í rauninni ekki forsvaranlegt. En það skiptir máli hvaða aðferðir við notum til að ná árangri og ná settum markmiðum.

Við teljum að þingsályktunartillagan sé að mörgu leyti of afmörkuð. Hún nær ekki að öllu leyti utan um það mikilvæga og raunverulega verkefni sem við stöndum frammi fyrir, að efla þekkingarsamfélagið í heild sinni.

Ég minnist á það sem ég kom aðeins inn á áðan í andsvari við hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar, um mikilvægi þess að hugsa um þekkingarsamfélagið með breiðara móti heldur en að einskorða það bara við raunhagkerfið og háskólana vegna þess að við munum ekki ná neinum árangri sem nýsköpunarsamfélag þar sem háskóla- og vísindastarfi er gert hátt undir höfði, þar sem hingað sækir hámenntað fólk til að koma og starfa ef við erum ekki með öflugan efnivið og þann mannauð sem á að starfa í þessum fyrirtækjum og nema við íslenska háskóla. Við mótum þennan mannauð frá því að barnið kemur í heiminn og við gefum því færi á að blómstra í leikskóla á samfélagslegum forsendum, þar sem allir koma jafnir inn á grunnskólastigið, þar sem hugað er að félagslegri samþættingu og öllum er veitt tækifæri til þess að nema tæknigreinar og iðngreinar eða bóknámsgreinar í menntaskólum, þar sem allir geta með raunverulegum hætti framfleytt sér í háskólanámi.

Ég ætla að fara efnislega í þetta og reifa það sem fram kemur í nefndaráliti okkar í 2. minni hluta. Í umsögn Siðfræðistofnunar er réttilega bent á, og þetta er mjög mikilvægt, að STEM-greinar og áherslan á þær, á ensku „Science, Technology, Engineering, Mathematics“ sem nú er orðið að STEAM, þar sem „Arts“ er bætt inn, færa okkur ekki lausnir við samfélagslegum áskorunum nema hugað sé að félagslegum álitaefnum sem raunvísindin svara að mjög takmörkuðu leyti. Það eru nefnilega mjög erfiðar áskoranir sem lausnirnar sem þessar greinar bjóða upp á hafa í för með sér og úrlausnarefnin eru nefnilega ekki nema að mjög takmörkuðu leyti tæknilegs eðlis. Til að takast á við þau þurfum við að efla og virkja þekkingu á mörgum sviðum. Við þurfum lögfræðina, við þurfum uppeldis- og menntavísindi, félagsvísindi, siðfræði og önnur hugvísindi. Verum með það alveg á hreinu að gagnrýnin hugsun verður ekki til í stærðfræðinni eða efnafræði eða verkfræði. Það eru félagsvísindagreinarnar, hugvísindin og heimspekin sem leiða okkur áfram um þá rangala sem gagnrýnin hugsun býður upp á því hún á alltaf erindi.

Að okkar mati í 2. minni hluti á það þar af leiðandi að vera sérstakt markmið að stuðla að þverfaglegu samstarfi allra þessara ólíku þekkingargreina. Það er auðvitað sjálfsagt mál að leggja áherslu á STEAM-greinar. Það er í sjálfu sér mjög virðingarvert markmið og við sjáum það alveg að tölfræðin sýnir fram á að það þarf að auka hlut kvenna í þessum fögum. Við þurfum að gera bragarbót í ýmsu sem lýtur að því að gera þessum námsgreinum hærra undir höfði. Ég gæti auðvitað talað hér í allan dag um áherslur í íslensku menntakerfi og sérstaklega í framhaldsskólakerfinu á bóknám og ástæðu þess að mjög margir skila sér inn í stóru bóknámsgreinarnar í háskólanum sem STEAM-greinar mögulega líða fyrir ég. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér og nú en bind vonir við það að íslenskt menntakerfi hér á Íslandi geti fundið lausnir á því, bæði hvað varðar þessa miklu áherslu á stórar bóknámsgreinar og þann kynjahalla sem því miður virðist ætla að leiða af þessari forgangsröðun.

Ef ég held áfram með umfjöllun Siðfræðistofnunar þá er í rauninni mjög óábyrgt að einblína á þröngt hagnýtt gildi afmarkaðra þekkingarsviða og aukna tæknilega getu án tillits til tilgangs eða afleiðinga í víðara samhengi. Þetta þýðir auðvitað að við verðum að byggja þetta á talsvert breiðari grunni. Það dregur í rauninni fram galla þeirrar þingsályktunartillögu sem er hér til umfjöllunar að mörgu leyti því að leiðandi stef í tillögunni er atvinnulífið og hugvit sem útflutningsgrein. Áherslur eru allar á þau málefnasvið sem heyra beint undir þetta tiltekna ráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Heildarmyndin má ekki missa marks. Við getum ekki verið að búa hérna til nýjan ramma fyrir íslenskt menntakerfi og íslenskt atvinnulíf og íslenskar nýsköpunargreinar ef við ætlum ekki að hugsa um menntakerfið okkar í einni heild, frá leikskólastiginu upp í háskólastigið, þegar það er klippt á kórónu íslensks menntakerfis, sem er reyndar ekki að mínu mati háskólinn heldur leikskólinn og grunnskólinn, framhaldsskólinn. Ef við klippum á þessa mikilvægu samfellu þá er eitthvað að.

Þekkingarsamfélagið sprettur upp úr spíral, út frá þörfum og ástríðu fólks frekar en að mótast af valdboði að ofan. Aðgerðir í þágu eflingar þekkingarsamfélags verða að tryggja raunverulega getu fólks til að sækja sér tækifæri. Við þurfum að tryggja að staðinn sé vörður um félagsleg og stjórnmálaleg réttindi og lýðræðisleg gildi. Hvað þýðir það? Jú, það verður að leggja áherslu á sjálfstæð markmið um að auka gæði náms og námsumhverfis í samkeppnishæfum háskólum og taka mið af þeirri alvarlegu stöðu sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir um þessar mundir. Það liggur fyrir að á Íslandi hafa töluvert færri lokið háskólamenntun en annars staðar á Norðurlöndum. Tæplega 42% ungs fólks á aldrinum 25–34 ára hafa aflað sér háskólamenntunar á Íslandi. Þessi tala er 49% í Danmörku, 49,2% í Svíþjóð og 55% í Noregi. Samhliða þessu fylgjumst við með lakari niðurstöðu úr könnunum á borð við PISA og líka öðrum mælitækjum á undanförnum árum. Þær sýna alltaf að það dregur verulega úr hæfni íslenskra grunnskólanema í alþjóðlegum samanburði. Þarna erum við að bregðast börnunum okkar.

Aðgerðaáætlunin tekur ekki á nokkurn einasta hátt til þess hvernig efling þekkingarsamfélagsins geti náð til fleiri menntastofnana, eins og ég hef áður komið inn á. Aðgreiningin frá öðrum stoðum íslensks menntakerfis, ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta, er svo óæskileg og svo vanhugsuð. Hún mun til langs tíma koma verulega niður á samkeppnishæfni íslenskra háskóla og rannsóknastarfi á þeim vettvangi og íslensku atvinnulífi ef við ætlum að fara út í þá sálma.

Eitt meginmarkmið þingsályktunartillögunnar er að stefnumótun og samhæfing á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði efld. Það er fjallað nánar um þessa hluti í greinargerðinni, að það þurfi að styrkja þverfaglega samvinnu allra námsgreina, nota bene ekki stofnana, til þess að mæta helstu úrlausnarefnum samtímans og auka þekkingu til framtíðar. Hraðar breytingar á samfélaginu kalli á breyttar áherslur og til að mæta vaxandi eftirspurn eftir tækniþekkingu, breytingum á vinnumarkaði og aukinni samkeppnishæfni þurfi að fjölga nemendum í þessum STEAM-greinum.

Þá langar mig aðeins til þess að ræða þá umsögn sem okkur barst frá Listaháskólanum þar sem því var fagnað því að bókstafnum A var bætt inn í STEM svo úr varð STEAM og lögð áhersla á að A-ið feli í rauninni í sér hugvísindi. Það hafa í rauninni ekki komið neitt sérstaklega skýr svör frá þeim sem leggja fram nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um hvað A-ið felur í sér. Við getum bara borið þá von að það opni á einhvers konar áherslur á hugvísindi. Það kæmi mér reyndar samt á óvart en ég vona svo sannarlega að hægt verði að skerpa á þessum áherslum í síðari umræðu hérna á Alþingi.

Önnur skemmtileg skammstöfun er SHAPE, með leyfi forseta, „Social Sciences, Humanities and the Arts for People and the Economy“. Þær greinar hafa nefnilega ekki síður vægi í framtíðaráskorunum og verðmætasköpun samfélaga. Þetta leiðir okkur síðan yfir í umsagnir sem okkur bárust frá Landssamtökum íslenskra stúdenta, ReykjavíkurAkademíunni og Háskólanum á Bifröst þar sem er tekið undir þetta sjónarmið og lögð áhersla á að efling raungreina geti ekki verið á kostnað annarra greina. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við heyrum því fleygt fram að þó að verið sé að leggja áherslu á STEAM þá sé ekki ætlunin að skilja aðrar greinar eftir. En ég held að það hljóti að liggja í hlutarins eðli að þegar við setjum eitthvað í sérstakan fókus og leggjum sérstaka áherslu á einhverjar fræðigreinar umfram aðrar þá verði það til þess að annað verði a.m.k. sett aftar í röðina.

Við teljum að þekkingarsköpun innan háskóla eigi að vera forsendum þekkingar, þarfa og ástríðu nemenda en ekki á forsendum atvinnulífsins. Þá langar mig samt sem áður að leggja áherslu á að eitt þarf ekki að útiloka annað. En við eigum hins vegar að gjalda varhug við því að atvinnulífið fái að ráða of miklu um það hvernig námi vindur fram innan veggja háskólastofnana vegna þess að við þurfum að tryggja sjálfstæði háskólanna umfram allt og að við séum algerlega trygg fyrir þeirri stöðu að fjársterkir hagnaðardrifnir aðilar séu komnir í eitthvert forræðishlutverk, sérstaklega gagnvart opinberum háskólum, um það hvernig rannsóknum skuli háttað og hvaða áherslur eru lagðar á námsúrval eða námsval hvers nemanda í hvaða fræðigrein sem er. Við vitum það, og ég kom inn á þetta í fyrri umræðu þegar málið var lagt fyrir Alþingi, að það er ekki æskilegt að sérfræðingar á ákveðnum fræðasviðum séu menntaðir að hluta til af aðilum sem þeir munu kannski koma til með að hafa eftirlit með í framtíðinni, fari svo að viðkomandi muni starfa t.d. í eftirlitsgeiranum, vegna þess að við eigum að bera virðingu fyrir eftirlitsgeiranum. Í litlu nærsamfélagi er þetta alveg sérstaklega „relevant“ og ég nefni bara í dæmaskyni greinar eins og sjávarútvegsfræði, lögfræði og aðrar vísindagreinar á hvaða sviði svo sem er. Það þurfa að vera skýrir veggir þarna á milli. Faglegt sjálfstæði er eitthvað sem þarf að tryggja fram í rauðan dauðann, svo ég leyfi mér það orðalag, og við eigum ekki góða háskóla ef þeir eru ekki sjálfstæðir. Það er algerlega á hreinu.

Annað meginmarkmið þingsályktunartillögunnar er að auka gæði náms. Ég kom inn á þetta áðan, við verðum að auka samkeppnishæfi og gæði í námi. Aftur komum við inn á það að rannsóknarhlutverk háskólanna verði aukið og metnaður og hugvit virkjað í því skyni að skapa ný tækifæri fyrir vísindafólk. Ég get bara ekki lagt nógu mikla áherslu á það hversu innilega við tökum undir þetta í 2. minni hluta. En við verðum þá aðeins að staldra við og skoða hverjar áherslur ríkisstjórnarinnar eru í fjárlögum. Við getum ekki tekið fögur fyrirheit í þessari tillögu til þingsályktunar án þess að skoða hvert peningarnir fara. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á þetta áðan og vil ég aðeins bæta við þá umræðu sem hefur mjög mikla þýðingu.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 er þessi sýn tillögunnar ekki endurspegluð. Það er áætlað að skera niður fjármagn til grunnrannsókna og Rannsóknasjóður Vísinda- og tækniráðs, svo dæmi sé tekið, sér eftir 500 millj. kr., fer úr 3.727 millj. kr. niður í 3.230 millj. kr. Þetta er 41,7% niðurskurður á nýveitingum sjóðsins árið 2023. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 er jafnframt gert ráð fyrir áframhaldandi skerðing verði á sjóðnum árið 2025 og 2026. Miðað við núverandi verðbólguspár er algerlega ljóst að rýrnun sjóðsins verður mikil. Grunnrannsóknir eru að mati 2. minni hluta forsenda fyrir því að nýsköpunarumhverfi geti þrifist hérna. Hver á eiginlega að starfa í nýsköpunarfyrirtækjum önnur en þau sem hafa notið góðs af því að grunnrannsóknir séu ræktaðar í skjóli háskólanna, ekki bara á vettvangi nýsköpunarfyrirtækja?.

Til samanburðar þá er hér í sama fjárlagafrumvarpi gert ráð fyrir því að auka framlög til nýsköpunarfyrirtækja um 14% eða tæpa 2 milljarða. Þau munu nema samtals 15 milljörðum árið 2024 og 16 milljörðum árið 2025. Við sjáum bara hvert við stefnum. Fjármagnið er að fara úr grunnrannsóknum, úr sjóðum sem háskólasamfélagið getur sótt í og sækir í. Þessir sjóðir hafa ekki verið digrir í gegnum tíðina. En það á að rækta nýsköpunarfyrirtækin.

Við höfum í rauninni ekki mjög öfluga innviði heldur þegar kemur að því að hafa eftirlit með því í hvaða verkefni þessara sömu nýsköpunarfyrirtækja opinberir fjármunir streyma. Ég ætla ekki að tala niður einstaka nýsköpunarfyrirtæki, mér finnst ekki bragur á því. Auðvitað sækja fyrirtækin í þá sjóði sem þeim standa til boða. En erum við að sjá fram á mjög frjálst umhverfi sem lítið eftirlit er haft með, lítið gæðaeftirlit? Skattyfirvöld hafa bent á það ítrekað að það þurfi að vera mjög skýr rammi um það hvernig þetta fjármagn er nýtt. En svo virðist ekki vera.

Í fjárlagafrumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir 8% lækkun á fjárveitingu til Innviðasjóðs sem fjármagnar þá innviði sem þarf til þjálfunar íslensks vísindafólks á öllum sviðum, auk þess sem íslensk sprotafyrirtæki hafa átt greiðan aðgang að innviðum þeim sem fjármagnaðir eru af sjóðnum. Það má alls ekki vanmeta hlutverk sjóða sem þessara við þjálfun og menntun ungs vísindafólks í rannsóknum og atvinnulífi á Íslandi.

Ég bara ítreka að það eru skýr teikn á lofti í áherslum ríkisstjórnarinnar að fyrirtækjum sem starfa í hagnaðarskyni verði gert hærra undir höfði við úthlutun opinbers fjármagns en aðilum innan háskóla- og vísindasamfélagsins. Við þurfum að gjalda varhug við þeirri sýn að atvinnulífið eigi að hafa forræði á þekkingarsköpun og fræðilegum áherslum háskólanna. Það er akademískt frelsi. Það verður ekki annað séð en að þessi þróun muni hafa, þegar fram líða stundir, bein áhrif á sjálfstæði háskólanna og gera þá háða fjárveitingu hagnaðardrifinna aðila, ef þetta er staðurinn þar sem rannsóknir eiga að eiga sér stað.

Við getum eiginlega ekki yfirgefið þessa umræðu um eflingu þekkingarsamfélagsins án þess að gagnrýna að það eru ekki mjög skýrar aðgerðir hér um að bæta aðgengi að námi. Við sjáum að það eru teikn á lofti um að breyta reiknilíkani háskólanna, sem er vel, ég fagna því. En ég ætla hins vegar líka að nefna að það er ekki tímabært fyrir okkur til að leggja mat á það hvort hugsanlegar breytingar á Menntasjóði námsmanna muni fela í sér raunverulega bætingu á kjörum námsmanna. Til þess vantar mig bara hreinlega útfærsluna. En í þessum áætlunum ætti slíkt liggja fyrir. Væri ég ráðherra hefði ég helst ekki sent frá mér slíka áætlanagerð án þess að útfæra það nokkuð dyggilega hvernig ég ætlaði að tryggja betur framfærsluöryggi námsmanna og stuðla að því að horfið verði frá þeirri þróun sem hefur átt sér stað á Íslandi að sífellt fleiri háskólanemar sjá sér ekki fært að stunda nám án þess að vinna verulega mikið með námi. Þau eru mörg hver hreinlega í fullu starfi með námi sem er uggvænleg þróun og einstök á heimsvísu.

Það er, eins og ég segi, hætta á að hluti af fjármögnun háskólanna muni velta á útskrifuðum nemendum, þ.e. að árangurstengingin við útskrifaða nemendur muni leiða til þess að það verði ákveðin rýrnun, það verði ákveðin einkunnaverðbólga. Ég get ekki annað en tekið undir kröfur LÍS um að það verði að endurskoða lög um Menntasjóð námsmanna. Það verður að efla hlutverk hans sem félagslegs jöfnunarsjóðs að norrænni fyrirmynd. Landssamtök íslenskra stúdenta hafa bent á að viðunandi stuðningur við stúdenta sé forsenda fyrir eflingu þekkingarsamfélags og því ætti aukið fjármagn til Menntasjóðs námsmanna að vera grundvöllurinn fyrir öllum þeim aðgerðum sem koma fram í þingsályktunartillögunni. Ef fram heldur sem horfir þá verður bara alls enginn lánasjóður í eiginlegri mynd hér því eins og staðan er í dag eru lánskjör á þessum lánum, sem hér í upphafi voru félagslegt jöfnunartæki, alls ekki góð, jafnast á við fasteignalán, mörg hver. Þetta þjónar ekki jaðarsettum hópum eða almenningi, við þurfum ekki einu sinni að tala um jaðarsettra hópa í þessu samhengi. Þetta fólk á ekki sama kost á því að sækja sér menntun og aðrir. Við þurfum líka að huga að aðstæðum fólks á landsbyggðinni og fólks sem kýs að sækja sér menntun þrátt fyrir að vera komið yfir miðjan aldur.

Allur stuðningur við háskólanema er fjárfesting í framtíðinni og mun skila miklum ágóða fyrir íslenskt þekkingarsamfélag til lengri tíma, ég ætla bara að fullyrða þetta. Ef það á að ná þessum markmiðum stjórnvalda um að fjölga háskólanemum, sem lagt er upp með í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu, og gera hugvit að stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar, þessari ótakmörkuðu auðlind, þá verður hreinlega að bæta dyggilega við stuðning við nemendur. Þá þurfa háskólanemar einhverja vissu um það hvernig þeir ætli að fjármagna nám sitt og framfærslu sína og komast út á húsnæðismarkað að námi loknu án þess að það komi niður á gæðum náms þeirra. Við þurfum að tryggja að þau geti líka valið sér nám við hæfi miðað við áhugasvið hvers og eins. Ég vil bara benda á að við eigum alveg frábærar fyrirmyndir nálægt okkur sem við getum horft til og dregið lærdóm af því fyrirkomulagi sem þekkist á Norðurlöndunum í því samhengi eins og í svo mörgu öðru.

Ég ætla að koma rétt inn á mikilvægi fjarnáms. Aðgengi að menntun snýr ekki bara að efnislegum hindrunum, það snýst líka um búsetu og aldur, eins og ég nefndi hérna áðan. Ein leið til að tryggja jafnræði er að bjóða upp á styttri og sérhæfðari námsleiðir, þar á meðal starfstengt fagháskólanám. Þar vísum við til umsagnar Samtaka iðnaðarins að því leyti. Þannig geti einstaklingar á vinnumarkaði aukið hæfni sína og fengið hana viðurkennda. Sveigjanleiki menntakerfisins er eitthvað sem við ættum að taka til alvarlegrar skoðunar. Það eru stór tækifæri sem fylgja rafrænum kennsluháttum og fjarnámi og það er mjög mikilvægt, tel ég, að stjórnvöld skoði þær hindranir sem mæta þessum hópum sem ég hef nefnt hér áðan og móti aðgerðir þekkingarsamfélagsins eftir því.

Ég tel ástæðu til að koma stuttlega inn á stuðningsumhverfi nýsköpunar. Það verður að segjast að háskólar eru ekki eina umhverfið sem hugvit og nýsköpun geta sprottið út frá. Fólk utan þess samfélags getur líka fengið góða hugmynd og haft áhuga á að koma henni í framkvæmd í formi nýsköpunarverkefnis.

Við þurfum að tryggja aðgengi smærri og yngri frumkvöðlafyrirtækja að endurgreiðslum, tryggja þeim stuðning í formi endurgreiðslu úr sjóðum að einhverju leyti. Ég vísa hér til umfjöllunar atvinnuveganefndar um efni þingsályktunartillögunnar og tökum við í 2. minni hluta undir hana að mörgu leyti. En það er líka mikilvægt að árétta að styrkjaumhverfi á Íslandi sé gert heildrænna, aðgengilegra, sveigjanlegra og kvikara. Það er mikilvægt í umræðunni um umgjörð styrkjaumhverfis að við skoðum hvernig sé best að haga styrkjaumhverfi út frá markmiðum þekkingarsamfélagsins. Við leggjum til að í þeirri vinnu verði ábendingar atvinnuveganefndar um aðgengi ólíkra hópa að þessum sömu samkeppnissjóðum hafðar að leiðarljósi.

Við viljum þó gjalda varhug við fyrirætlunum sem fram koma í tillögunni um að kanna hvort fækka megi sjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar. Frá þessu greint í kafla 3.3.1 í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Ávinningur af slíku liggur ekki fyrir og við þurfum miklu frekar, eins og ég kom inn á hér áðan, að stórauka gagnsæi um úthlutun úr opinberum sjóðum og tryggja að úthlutun úr þeim verði flestum til góðs. Það liggur fyrir að opinberir styrkir til nýsköpunarfyrirtækja hér á landi hafa vaxið gríðarlega mikið á undanförnum árum. Árið 2015 — og þetta er mjög mikilvægt — námu þessir styrkir 1,3 milljörðum, 1.300 milljónum, en gert er ráð fyrir að árið 2024 verði þeir 16,6 milljarðar. Þarna hefur styrkjakerfum okkar vaxið ásmegin og við ættum að fagna því. Jú, við skulum fagna framlagi og fjárfestingum inn á þennan vettvang en í mjög nýlegri úttekt OECD í nóvember 2023, pöntuð af hálfu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er bent á að mjög mikill skortur sé á gögnum og reglulegu eftirliti með styrkþegum og verkefnum þeirra. Það þýðir ekki bara að standa og skrifa upp á ávísunina, það verður fylgja þessum verkefnum eftir í formi eftirlits. Það er einhvern veginn alltaf svo mikið bannorð hér, það má aldrei hafa eftirlit, þá erum við einhvern veginn að grafa undan þessu gagnkvæma trausti sem á að vera til staðar milli yfirvalda og aðila sem starfa í hagnaðarskyni. En við verðum aðeins að átta okkur á því að það er bara mjög mikilvægt að eftirlitið sé mikið með slíkum styrkjum vegna þess að hagnaðardrifnir aðilar hafa að sjálfsögðu bara mjög mikinn hag af því að ná sem mestu út úr slíkum styrkjum. Við þurfum að skoða hvort þessi framlög fari í verkefni sem hafa t.d. verið lengi til innan fyrirtækjanna, fari ekki í það sem þau ættu raunverulega að fara í, nýsköpunarverkefni. OECD bendir á að það sé erfitt að leggja mat á árangur hvers og eins fyrirtækis og skortur er á gögnum sem gefa vísbendingu um dreifingu styrkja í formi skattafsláttar. Ljóst þykir að ráðstöfun opinbers fjár hefur fyrst og fremst nýst örfáum stórfyrirtækjum hér á landi, þvert á markmið þessara styrkjasjóða. Það sýni fram á talsverða einsleitni við úthlutun þess.

Ég vil koma því mjög skýrt á framfæri að íslensk skattyfirvöld hafa bent á mikla þörf á að herða eftirlit með útgreiðslu styrkjanna. Ég þarf ekkert að tvítaka að það er ekki mikið minnst á styrkjaeftirlit í þingsályktunartillögunni eða eflingu eftirlitsiðnaðarins sem hefur að geyma mjög marga færa sérfræðinga.

Við verðum algjörlega að vera skýr með þá sýn að íslenskt þekkingarsamfélag þarf að vera aðgengilegt og sveigjanlegt ef það á að þjóna þörfum samfélagsins um þessar mundir og til framtíðar. Það þarf að aðlaga aðgerðir þingsályktunartillögunnar að þörfum einstaklinga, nemenda og frumkvöðla í stað þess að einblína á þarfir hagnaðardrifinna aðila vinnumarkaðarins eingöngu. Það liggur ekki alveg í augum uppi hvað verður mikilvægt fyrir samfélagið og atvinnulífið í náinni framtíð því að þetta breytist allt saman hratt. Við ættum að leggja áherslu á að skapa samfélag þar sem fólk getur leitað sér þekkingar á eigin forsendum. Við ættum að leggja áherslu á það að hugsa heildrænt um menntakerfið, að við eflum og búum í haginn fyrir þekkingarsamfélagið því að slíkar áherslur stuðla að framsæknu þekkingarsamfélagi sem lagar sig að fólk í framtíðinni.

Við í 2. minni hluta hvetjum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti til að taka til greina þau sjónarmið sem hafa verið reifuð í umsögnum sem hér hefur verið fjallað um í ræðu minni í dag og endurskoða þingsályktunartillöguna með tilliti til þeirra.