154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Dagbjört Hákonardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni kærlega fyrir andsvarið. Mér er ljúft og skylt að ræða aðeins ástríðuna hér í ræðustól Alþingis því að ástríðan er lykillinn að öllu því sem við fáumst við, sum hver alla vega, ég get alla vega talað fyrir sjálfa mig. Hún er drifkrafturinn í mörgu því sem maður gerir vel.

Ef ég skil spurningu hv. þingmanns rétt þá kemur hann inn á það hvort við eigum ekki að vera með einhvers konar traust á yfirvöldum í því að forgangsraða fjármunum í þágu ákveðinnar áherslu í þeim námsleiðum sem eru í boði í háskólum þannig að það verði ekki til einhver óráðsía, að allir læri bara það sem þeim þykir skemmtilegast hverju sinni. Ég held að þarna séu bara mjög góðir millivegir. Það má kannski útskýra þessar áherslur í nefndarálitinu með þeim hætti að við höfum séð að með núverandi reiknilíkani háskólanna verða til ofboðslega stórar námsleiðir, óeðlilega stórar, vil ég bara leyfa mér að segja, sem er ódýrt að kenna, sem byggist á því að það séu stórir bekkir. Ég nefni hér lögfræðina, mína fræðigrein, ég nefni hér sálfræðina og viðskiptafræðina, sem ég held að séu bara hver um sig gríðarlega mikilvægar fræðigreinar sem við eigum ekki að tala niður að neinu leyti. En miðað við hversu hátt hlutfall er af nemendum í þessum greinum versus það hvar þær eru staðsettar í reiknilíkaninu þá eru vísbendingar og teikn á lofti um að fólk búi ekki við það frelsi að geta raunverulega ráðstafað (Forseti hringir.) vali sínu á námi eftir því hvar raunverulegur áhugi þeirra liggur.