154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Dagbjört Hákonardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir frábæra spurningu. Á bara að vera hér einn rannsóknarháskóli? Ég vísa til niðurstöðu Ríkisendurskoðunar frá því 2005 þar sem var mjög efnislega góð umfjöllun um kosti þess að einskorða rannsóknir við Háskóla Íslands. Sú greining er reyndar komin til ára sinna en ég ætla ekki að gefa neitt út með það hér og nú. Ég hef ekki til þess forsendur að leggja dóm þann dóm á íslenskt háskólalíf að það sé bara einn staður fyrir rannsóknir.

Hins vegar tel ég algjörlega ljóst — og ég vil kannski koma svolítið inn á það sem hv. þingmaður spurði mig að í fyrra andsvari því að ég komst ekki í að svara í fyrra andsvari. Á ekki háskólinn að þjóna atvinnulífinu? Svarið við því er: Jú að sjálfsögðu. En spurningin sem ég verð að spyrja mig sem kjörinn fulltrúi hér er: Hvernig er búið þannig í haginn fyrir háskólana, fyrir menntakerfið í heild sinni að það geti þjónað atvinnulífinu sem best? Það er auðvitað grundvallarspurningin. Auðvitað eigum við ekki að hlusta á einhverjar fortölur um að við séum að búa til háskólalíf sem geti ekki þjónað atvinnulífinu eða búið hér til blómlegt nýsköpunarlíf eða metnaðarfullar útflutningsgreinar, að sjálfsögðu ekki. Auðvitað er alger sátt um það. Það er hins vegar ekki samræmd pólitísk sýn á það hvernig við náum þessu markmiði. Ég tel að við eigum að byrja mun fyrr í íslensku skólakerfi að búa til hamingjusama einstaklinga sem eru líklegri til að velja sér nám við hæfi og skila ágóða út í þetta samfélag. Þetta eru mjög háleitar umræður, ég geri mér grein fyrir því, en ég er svo sannfærð um að þessi vinna byrji á leikskólastiginu, svo það sé bara sagt.