154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[16:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Hér erum við að ræða enn eina tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir og í þetta skipti erum við að ræða um þekkingarsamfélagið á Íslandi. Það er svo sem hægt að segja að í þessari stefnumótandi þingsályktunartillögu séu mörg fögur orð og þarna sé um metnaðarfulla stefnu að ræða en sannleikurinn er sá að því miður skortir það að fjármagn fylgi til þess að raunverulega ná því sem verið er að leggja fram. Við getum bara tekið dæmi hér úr tillögunni, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið í háskóla- og vísindastarfi verði að auka gæði náms og námsumhverfis í samkeppnishæfum háskólum. Rannsóknarhlutverk háskóla verði aukið og metnaður og hugvit virkjað í því skyni að efla þekkingu og skapa ný tækifæri fyrir vísindafólk.“

Já, ég ætla rétt að vona að allir vilji gera þetta, en á sama tíma er verið að skera niður. Raunveruleikinn er einfaldlega sá að það er verið að skera niður í þeim sjóðum sem snúa að fjármagni á rannsóknum, í nær öllum samkeppnissjóðum innan Vísinda- og tækniráðs. Sá niðurskurður er þó nokkuð stór, hann er yfir 1 milljarður. Þegar við í stjórnarandstöðunni reynum að benda á þetta, að þarna sé nú misræmi, þá fáum við alltaf sama svarið. Svarið er alltaf þetta: Ja, þetta voru Covid-aðgerðir. Frábært. Kannski að við ættum að hugsa aðeins: Af hverju fórum við í þessar aðgerðir í Covid? Jú, vegna þess að við vissum að það er nauðsynlegt, eða eins og fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, Esko Aho, orðaði það: Það er nauðsynlegt að fjárfesta á krepputímum.

Hvað erum við að ganga í gegnum í dag? Nú er ekki lengur Covid en við erum með verðbólgu og háa vexti. Við erum að ganga í gegnum tímabil þar sem er líka erfitt t.d. að ná í fjármagn annars staðar fyrir rannsóknir og nýsköpun. Við sjáum það bara á því að það hefur aðeins hægt á því úti um allan heim hvaða fjármagn er verið að setja í nýsköpun. Ef það var góð hugmynd að bæta við fjármagni í Covid þá hlýtur það að vera enn þá betri hugmynd núna því að eins og Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, orðaði það einnig, með leyfi forseta: Besta ráðið sem ég get gefið ykkur er að borða ekki kartöfluútsæði í kreppu. Nei, það er nefnilega þannig að fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun skilar sér margfalt til baka. Og þó svo að hún kosti eitthvað núna þá gerir hún það að verkum að hagkerfi okkar verður sterkara og sterkara.

Fyrir nokkrum árum síðan eða fyrir um áratug var hugvitsiðnaðurinn á Íslandi ekkert mjög stór en það voru stóru draumar um að gera hugvitsiðnaðinn að því sem ég held að hafi verið kallað þriðja eða fjórða stoðin, sennilega þriðja stoðin því að þá vorum við ekkert byrjuð á ferðaþjónustunni. Ferðaþjónustan hefur að sjálfsögðu orðið ein af stóru stoðunum okkar. En það merkilega hefur líka gerst að hugvitið hefur orðið að stórri grunnstoð í okkar hagkerfi. Þegar hagkerfið gengur vel þá græðir ríkið og fær peningana margfalt til baka sem það hefur lagt í rannsóknar- og samkeppnissjóði, rétt eins og allir aðrir fjárfestar sem fjárfesta í nýsköpun. Þetta er nokkuð sem er tiltölulega vel skilið úti um allan heim.

Ef horft er til síðustu 50 ára t.d. í löndum þar sem eru enn þá harðari kapítalískir stjórnmálamenn en hér á Íslandi, eins og t.d. í Bandaríkjunum þar sem bæði repúblikanar og demókratar hafa tryggt fjármagn til grunnrannsókna og aukið það ár frá ári síðastliðin 50 ár — þetta er það sem er að skila okkur hlutum eins og internetinu og öðrum tæknibyltingum. Eins líffræðibyltingu sem hjálpar okkur með lyfjaiðnaðinn og heilbrigðistæknina og heilbrigðisgeirann allan og meira að segja fjárfestingarnar í því sem kannski eru ekki tækni heldur t.d. það að fjárfesta í hlut eins og mannfræði. Ég get sagt ykkur sögu af því hvernig fjárfesting í mannfræðikennslu og -þekkingu skilaði sér. Jú, ég var hluti af því alþjóðlega teymi sem fór til Vestur-Afríku þegar ebólufaraldurinn geisaði þar 2014 og 2015. Fyrsta aðgerðaáætlunin hjá öllum var einfaldlega að setja upp fullt af sjúkrahúsum til að setja fólkið í sem þjáðist af þessari veiru, en talið var að allt að 80–90% þeirra sem fengju hana myndu látast. En viti menn, einn mannfræðingur, sem var sendur inn í samfélögin þar sem þetta geisaði í október og nóvember 2014, uppgötvaði það með því að fylgjast með fólkinu, með því að nýta sína þekkingu, sína rannsóknarþekkingu, áttaði sig á því að ef aðeins einni hegðun fólks væri breytt, það hvernig það meðhöndlaði lík eftir að fólk deyr, ef það breytti þessum eina hlut þá væri hægt að stoppa ebólubylgjuna. Og viti menn, það var hlustað á þennan mannfræðing. Í stað þess að byggja 100 sjúkrahús í þessum þremur löndum, og þá er ég að tala um tjaldsjúkrahús, þá var farið í massífa baráttu í því að fá fólk til að breyta því hvernig það fór með lík þegar einhver deyr. Þetta stöðvaði þessa bylgju af ebólu sem annars hefði getað farið um alla heimsbyggðina. Þannig að já, það borgar sig að fjárfesta í þekkingu og rannsóknum.

Grunnrannsóknirnar eru algjör lykill að öflugri nýsköpun. Þess vegna verðum við að standa vörð um slíkt, sérstaklega á krepputíma. Ef lítið er um pening þá þurfum við að finna peninginn annars staðar. Það var t.d. bætt við 1,5 milljörðum í fjárlögin fyrir tveimur árum síðan, sem hefur síðan haldið áfram, til að fjármagna eitt aukaráðuneyti. Spurning hvað það skilar til baka til samfélagsins miðað við það hvað fjárfesting í grunnrannsóknum hefði skilað.

Við í atvinnuveganefnd fengum þetta mál einnig til umsagnar. Við hefðum helst viljað fá þessa þingsályktunartillögu inn til okkar nefndar í upphafi vegna þess að við teljum að þetta hafi miklu meira að gera með möguleika hagkerfisins okkar til að vaxa heldur en endilega bara menntun. Við leggjum áherslu á það í okkar umfjöllun að farið verði í sérstakrar aðgerðir til að auka hlut kvenna þegar kemur að nýsköpun og rannsóknum og sérstaklega horft á það hvernig þær geta náð í fjármagn, vegna þess að það hefur sýnt sig þegar kemur að nýsköpun að konur fá síður fjármagn. Ef það eru kvenkynsfrumkvöðlar þá fá þær síður fjármagn, en ef þær bæta hins vegar við karlmanni í frumkvöðlateymið þá allt í einu kemur peningurinn inn. Þetta er svo sannarlega eitthvað sem við þurfum að horfa á.

Við viljum líka að það sé ekki bara, eins og nefnt er í þessari þingsályktunartillögu, horft til þess hvernig ríkið geti nýtt nýsköpun í heilbrigðisþjónustu heldur viljum við að horft sé til nýsköpunar í starfsemi allra ríkisstofnana og fyrirtækja. Við viljum líka að það sé settur ákveðinn fókus á nýsköpun tengdri loftslagsmálum og við teljum að það sé mikið af tækifærum tengdum því, bæði grunnrannsóknum og annarri nýsköpun.

Við viljum líka að það sé liðkað fyrir möguleikum erlendra frumkvöðla til að koma hingað. Það er búið að liðka fyrir því að fá hingað til lands starfsfólk erlendis frá en við þurfum líka frumkvöðlana, við þurfum líka að skapa tækifæri fyrir fólk sem kemur hingað utan frá EES til að koma hingað til lands, vera hér í rannsóknum, vera hér með nýsköpun. Það býr einfaldlega til tækifæri.

Við horfum líka mikið á menntunina og þar horfum við á aðgengi að fjarnámi. Við þurfum virkilega að setja fjármagn inn í háskóla til þess að auka það.

Mig langaði að nota síðustu mínúturnar sem ég hef til að ræða um stöðu námsmanna. Það er nefnilega þannig að ef við ætlum að byggja upp þekkingarsamfélag hér á Íslandi þá þurfum við að tryggja það að námsmenn hafi möguleika á því að sækja nám. Það er því miður talað voðalega fallega um það af stjórnvöldum að umsóknum í Menntasjóð námsmanna hafi farið fækkandi — eins og það sé góður hlutur. Það sýnir þvert á móti fram á það að það er grundvallarbrot í Menntasjóði námsmanna, framfærslulánin sem veitt eru eru svo lág að fólk nær ekki að lifa á þeim. Við gerðum einfalda útreikninga: Ef þú tekur að þér 50% vinnu með námi til þess að geta haft í þig og á, og ég tala nú ekki um til að geta leigt húsnæði, og sú vinna er bara einföld eins og að vinna á kassa í Bónus, þá kemur í ljós að framfærslustyrkurinn sem menntasjóðurinn lætur þig fá fer niður í 9.000 kr. á mánuði. Með öðrum orðum: Ef þú ferð í nám og þarft að vinna með því af því að framfærslustyrkurinn er svo lágur þá orsakar það það að þú færð engan framfærslustyrk. Þá sækir þú auðvitað ekkert um styrk og vinnur bara meira og það kemur að sjálfsögðu niður á náminu.

Við Píratar lögðum því fram, ásamt þingmönnum Flokks fólksins þann 1. desember sl., sem er einmitt dagur stúdenta, frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum sem bæta stöðu námsmanna. Grunnatriðin sem við lögðum þar fram voru í fyrsta lagi að framfærslulán fyrir 100% nám skyldi ekki vera lægra en grunnatvinnuleysisbætur vegna þess að það ætti frekar að vera þannig að fólk færi í nám en að vera á atvinnuleysisbótum. Í dag er sem sagt ódýrara fyrir ríkið ef þú ferð í nám en fyrir fólk almennt þá er þetta næstum því tvöfaldur munur. Við byrjuðum þess vegna á því að segja að grunnurinn ætti að vera sá að þú fáir það sama og grunnatvinnuleysisbæturnar eru.

Við horfðum líka á það að vera með meiri möguleika fyrir fólk til að taka námið á lengri tíma og brjóta það meira upp vegna þess að ef fólk er að vinna með námi eða ef upp koma aðstæður þar sem þú getur ekki verið að stunda fullt nám, þá þarftu að hafa tækifæri til þess að dreifa náminu betur.

Við erum líka með tvær grundvallarkröfur, ég myndi bara segja mannréttindakröfur fyrir námsmenn. Í fyrsta lagi: Ef námsmenn eignast börn þá sé fjárhæð fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi sú sama og grunnatvinnuleysisbætur. Í dag er þetta einfaldlega hrikaleg skerðing fyrir fólk, fyrir nemendur ef það eignast barn. Í öðru lagi er það þannig í dag að þó svo að nemar vinni með námi og borgi í Atvinnuleysistryggingasjóð þá eiga þau ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þetta er svona eins og verið sé að taka skatta af fólki en gefa því ekkert í staðinn. Þetta þarf að laga, að sjálfsögðu.

Einnig viljum við auka frelsi nema til þess að sækja um niðurfellingu námslána við ýmsar ástæður eins og vegna varanlegra veikinda, fjárhagsörðugleika og annarra sérstakra aðstæðna.

Að lokum er eitt sem við teljum að verði að laga og það er að starfsnám í öllum greinum sé greitt. Það eigi ekki að vera eins og er í dag að ef þú ert að læra lækninn eða hjúkrunarfræðinginn, bara til að taka eitt dæmi, þá þarft þú að taka ákveðið mikið af starfsnámi. Þú fær ekkert borgað fyrir það. En svo, af því að það er mannekla þá tekurðu aðrir vaktir og færð borgað fyrir þær. Að sjálfsögðu ætti að borga fyrir allar vaktir. Það er sem betur fer víða um heim smátt og smátt búið að banna þetta ógreidda starfsnám með lögum. Við Íslendingar þurfum að gera slíkt hið sama.

Grunnurinn að því að við getum byggt hér upp gott þekkingarsamfélag er að við hugsum vel um námsmennina, að við tryggjum það að námsmenn hafi tækifæri til þess að sækja nám óháð því hver fjárhagsleg staða, fjárhagslegur bakgrunnur þeirra fjölskyldna er og jafnframt að það sé ekki bara talað um fallegar aðgerðir í einhverjum skjölum sem enda bara á vefnum eða upp í hillu einhvers staðar, heldur sé raunverulega sett fjármagn, það sé raunverulega verið sé að tryggja það að við höfum nægt kartöfluútsæði, eins og það var orðað, til þess að eftir nokkur ár fáum við hér frábæra og mikla uppskeru sem hjálpar okkur að halda Íslandi í forystu á öllum sviðum samfélagsins.