154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[16:54]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025 og mig langaði að koma aðeins inn á önnur atriði en hafa verið rædd hér í dag. Tillagan gengur út á að Alþingi álykti að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vinna stefnumótandi aðgerðir til ársins 2025 til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi. Aðgerðin byggist á sýn um Ísland sem þekkingarsamfélag. Framtíðarsýnin, sem málið gengur út á, er að hugvitið, hin ótakmarkaða auðlind, verði grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar. Sjónum verði beint að sjálfbærri þróun atvinnulífs og samfélags með þekkingu og hugvit að leiðarljósi í stað þess að byggja á takmörkuðum auðlindum sem hafa í gegnum tíðina valdið sveiflukenndu efnahagsástandi.

Það sem kemur síðan fram í meginmarkmiðum er að stefnumótandi aðgerðir um þekkingarsamfélag á Íslandi skuli byggjast á þremur meginsviðum sem hvert um sig hafi að geyma tiltekin meginmarkmið og aðgerðir svo að framtíðarsýnin geti orðið að veruleika. Sviðin skiptist í háskóla- og vísindastarf, nýsköpun og hugverkaiðnað, fjarskipti, upplýsingatækni og netöryggi.

Það sem mig langar helst að ræða hérna í dag, sem hefur svo sem ekki verið mikið rætt, varðar meginmarkmið í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi þar sem verið er að ræða að tengja byggðir landsins og Ísland við umheiminn en jafnframt að innviðir og þjónusta mæti þörfum almennings og atvinnulífs. Stuðlað verði að sjálfbærri þróun á landsvísu með nýtingu stafrænna lausna, almennu aðgengi að áreiðanlegu netsambandi um ljósleiðara og háhraðafarnet auk ásættanlegs netöryggis á hverjum tíma til að svo megi verða.

Það er m.a. rætt um gígabitalandið, sem er ein af tillögunum undir markmiðum sem styðja fjarskipti, upplýsingatækni og netöryggi. Það verður að segjast að það hefur náðst gríðarlegur árangur á Íslandi á undanförnum fáum árum sem snýr einmitt að ljósleiðaravæðingu landsins sem hefur skilað okkur í það að vera efst á listum sem snúa að ljósleiðaratengingum á heimsvísu og almennum fjarskiptatengingum. Það er mjög gleðilegt að sjá hvernig verkefnið Ísland ljóstengt skilaði þeim árangri á undraskömmum tíma. Það var verkefni sem var unnið að mestu hérna 2017–2020. Framkvæmdum er að ljúka, eða þeim lauk að mestu 2022, og kannski eru síðustu verkefnin í gangi núna þar sem er verið að tengja við Árneshrepp á Ströndum.

Eftirfarandi kemur síðan fram í kaflanum Hugvit, grunnur að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar: Á lýðveldistímanum hefur saga atvinnulífs og hagkerfis einkennst af tímabilum uppgangs og samdráttar í einstökum atvinnugreinum. Áhrif slíkra breytinga á afkomu þjóðarbúsins hafa verið meiri en ella hefði getað verið vegna fábreytni í atvinnulífi og því varðar það miklu fyrir afkomu þjóðarinnar, til lengri tíma litið, að fjölbreytni efnahagslegra stoða þjóðarbúsins verði aukin.

Um síðustu jól kom út mjög áhugaverð bók sem Jóhannes Nordal skrifaði, Lifað með öldinni, og ég hef minnst á það áður í þessum stól að það ætti að vera skyldulesning fyrir þá sem vilja kynna sér hagsögu landsins og náttúrlega almennt fyrir fólk á Íslandi til að skilja hvað er búið að gerast síðustu 60–70 árin og þó að við færum öld aftur í tímann. En það er nákvæmlega þetta sem er verið að fjalla um, að fram til um 1970 voru útflutningstekjur á Íslandi fyrst og fremst sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Þá komu stóriðjan og orkuframleiðslan inn. Síðan höfum séð gríðarlegar tæknibreytingar í sjávarútveginum og gríðarlegar framfarir þar sem byggjast einmitt á þessari tækni og það er þar sem við viljum sjá þessa tækni og þekkingarsamfélagið byggjast upp, sem víðast og með nýjum greinum. Síðan er komin ferðaþjónusta og aðrir þættir. Þá hefur þekkingariðnaðurinn verið að byggjast upp, hugvitið, og það er það sem við viljum að komi næst inn af fullum krafti.

Ég hygg að það ætti að vera markmið þjóðarinnar varðandi útflutningstekjur þjóðarinnar að við séum helst ekki með þannig greinar, þegar við tölum um svona einkennandi greinar í íslensku efnahagslífi í útflutningi, að það komi ekki mikið meira en 25% af útflutningstekjum frá einstökum greinum. Það má geta þess að þó að sá sem hér stendur tali mikið um flug og ferðaþjónustuna og að hún styrkist, og tali oft og tíðum fyrir hönd þessara atvinnugreina, að við viljum kannski ekki sjá það sem gerðist árið 2018 þegar yfir 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar komu frá ferðaþjónustunni og fluginu, heldur viljum við einmitt, eins og þessi markmið hér segja, byggja upp fleiri greinar í samfélaginu.

Það hefur verið mikill þekkingariðnaðarvandi varðandi lyfjagerð og er vonandi að hún geti styrkst verulega á nýjan leik og orðið stór atvinnugrein hér á næstu árum. En auðvitað erum við að tala um þekkingarsamfélagið almennt. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanna í dag með tölvuleiki, ýmislegt tengt því, líftækni og slíka þætti.

Ég kom eiginlega hér upp til að brydda aðeins upp á nýju máli sem ég hyggst fara í á nýju ári, þ.e. að skoða þingsályktun eða beiðni um skýrslu, eða hvernig sem við förum að því, frumvarp eða hvað, sem snýr að því að styrkja nákvæmlega þennan þekkingariðnað, þ.e. ljósleiðaratengingar í landinu og fjarskiptatengingar, það er verið að ná þeim yfir á svolítið nýtt svið. Við höfum náttúrlega séð breytingarnar, eins og ég sagði, úti um sveitir landsins varðandi ljósleiðaramálið, Ísland ljóstengt. Næsta vers er að tengja þorpin og minni staði við ljósleiðarann. Það er í góðu ferli einmitt þessa dagana og vonandi förum við að sjá árangur í því á nýju ári.

En það sem ég ætlaði fyrst og fremst að impra hér á sem hugmynd, til að styðja við fjarskipti í landinu, varðar fyrirtæki sem heitir Orkufjarskipti, sem er fyrirtæki í eigu Landsvirkjunar og Landsnets. Orkufjarskipti reka fjarskiptainnviði fyrir raforkukerfi landsins í formi ljósleiðaradreifikerfis. Þetta kerfi er landsdekkandi og hefur í gegnum tíðina einungis verið notað í þeim tilgangi að tengja saman virkjanir og flutningskerfi raforku. Það liggja mikil tækifæri — ég hygg að það liggi geysilega mikil tækifæri — í því að nýta þetta ljósleiðarakerfi betur fyrir aðra grunnfjarskiptainnviði landsins. Hér er um mikla hagsmuni að ræða sem geta stóreflt fjarskiptaöryggi í landinu.

Þessu er oft lýst með þeim hætti að með því að tengja þessi kerfi saman — það kom fram í skýrslu hóps sem fyrrverandi hv. þm. Haraldur Benediktsson leiddi, að ég hygg á síðasta kjörtímabili, og vann í starfshópi sem var skipaður af þáverandi utanríkisráðherra. Skýrslan var unnin innan þess ráðuneytis. Hún varðaði einmitt hvað væri hægt að gera með þessa möskvun sem tengist þessum innviðum, ljósleiðaratengi, sem hafa verið byggðir upp á undanförnum áratugum.

Með því að tengja kannski fyrir — í skýrslunni var talað um innan við milljarð, þá mætti stórauka allan möskvun á ljósleiðarakerfi landsins og búa til miklu öflugra kerfi og miklu margþættari tengingar og skapa þar með meira öryggi. Hér á landi varðandi ljósleiðara hefur fyrst og fremst verið NATO-strengurinn eða hringstrengurinn svokallaði, sem var lagður og tekinn í notkun um 1990, fyrir rúmum 30 árum, er svolítið farinn að eldast og tengir raunverulega saman ratsjárstöðvar Atlantshafsbandalagsins á fjórum hornum landsins. Sá strengur, NATO-strengurinn, hefur aðeins átta ljósþræði og allir eru þeir fullnýttir í dag. Hann er einmitt kominn á tíma og því nauðsynlegt að huga að því að skapa fleiri tengimöguleika, þar á meðal á hringtengingu landsins, sem ég kom inn á áðan, með betri möskvun. Þessi strengur er á mörgum stöðum eina grunnfjarskiptatengingin í mörgum bæjum, þorpum og heilu landsvæðinu vítt og breitt um landið.

Í kerfi Orkufjarskipta eru að meðaltali á bilinu 24–96 ljósþræðir en einungis tveir til tíu þræðir í notkun. Þið sjáið að hér er um allt annað kerfi að ræða og miklu öflugra en við þekkjum í hinum svokallaða NATO-streng, eða ljósleiðaratengingu. Þannig að það leynast miklir möguleikar í því að nýta þetta kerfi, þessa þræði betur. Þeir eru vannýttir í dag og það hefur náttúrlega verið svolítið þannig að forsvarsmenn fyrirtækisins Orkufjarskipta, eða stjórn, hafa verið ragir við að leyfa öðrum fjarskiptafyrirtækjum að nýta ónýtta getu ljósþráða sem ekki er í notkun hjá Orkufjarskiptum í þessum ljósstrengjum.

Með einföldum hætti og lagabreytingum mætti koma hlutum þannig fyrir að bæta fjarskiptaöryggi landsins með samnýtingu þessara innviða og stórefla hagnýtingu þeirra án þess að skerða eða veikja starfsemina sem er tengd raforkukerfinu. Rekstur raforkukerfis er samfélaginu gríðarlega mikilvægur og gegnir fjarskiptaöryggi mjög miklu til að tryggja öryggi þess.

Almennur aðgangur, aðgangur að tæknibúnaði og nýting á kerfinu getur aldrei verið á forsendum opins aðgangs að honum vegna öryggishagsmuna enda er kerfið byggt upp til að stýra þjóðhagslega mikilvægum innviðum. Lega kerfisins, uppbygging og frágangur, gæðakröfur á búnaði og slíkir þættir eru á hæsta stigi samkvæmt öllum öryggissjónarmiðum.

Eins og ég kom að áðan þá mætti gera mikið með fjárfestingu upp á milljarð til þess að styrkja þetta kerfi mikið og getu þess. Síðast þegar ég vissi þá eiga Landsvirkjun og Landsnet Orkufjarskipti og þar með er þetta í opinberri eigu.

Auðvitað höfum við á undanförnum árum fengið síðan nýja fjarskiptastrengi og tengingar við Evrópu. Fjarskiptastrengurinn ÍRIS var tekinn í notkun á fyrri hluta ársins, sem stórbætti fjarskiptaöryggi. Síðan má geta þess að lokum það sem var tilkynnt núna í byrjun desember, sem kom fram í fréttatilkynningu frá fjarskiptafyrirtækinu Mílu og Farice, en þau gerðu samning hérna í byrjun árs og skrifuðu undir samning um afhendingu á útlandasambandi Farice til Mílu á Akureyri. Ný netmiðja verður sem sagt til á Akureyri.

Hér er um mjög áhugavert verkefni að ræða sem snýr að því að byggð verði upp ný fjarskiptamiðja á Akureyri fyrir netumferð til og frá Íslandi. Farice mun nú bæta Akureyri við sem nýjum afhendingarstað útlandaþjónustu. Fram að þessu hefur einungis ein fjarskiptamiðja verið í landinu, þ.e. á suðvesturhorni landsins. þannig að öll netumferð frá Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi hefur öll farið þar í gegn. Nú verður breyting á þessu með nýrri netmiðju Mílu og afhendingarstað Farice. Hér er um mikilvægt öryggismál að ræða sem styrkir fjarskiptaöryggi landsins. Jarðhræringar á Reykjanesskaga undanfarin ár sýna fram á mikilvægi þess að sett sé upp ný netmiðja annars staðar á landinu.

Með leyfi forseta langar mig að vitna í fréttatilkynningu Mílu frá því fyrr í þessum mánuði í tengslum við nýja netmiðju á Akureyri:

„Ný netmiðja á Akureyri eykur öryggi fjarskipta enda er bæjarfélagið á öðru jarðfræðilegu svæði og nægilega fjarlægt suðvesturhorni landsins til að uppfylla kröfur um landfræðilegan aðskilnað þeirra fyrirtækja og stofnana sem þurfa að velja varastaðsetningu fyrir stafræn gögn og tengingar. Það þýðir til að mynda að Akureyri og nágrenni gæti komið til greina sem varastaðsetning fyrir fjarskiptamiðstöðvar, neyðarmiðstöð almannavarna og þjóðfélagslega mikilvægar stofnanir.“

Í stóru myndinni er hér svo sannarlega um þjóðaröryggismál að ræða sem snýr að þessum grunni, þ.e. að grunni þekkingarsamfélagsins. Það sem við höfum séð núna vera að þróast tiltölulega hratt hjá okkur á undanförnum árum er að það hefur gengið mjög vel að byggja upp þessa innviði en við þurfum kannski að gera enn betur svo að við getum gert stærri hluti hér á landi.

Við höfum ekki komið inn á netöryggismálin, sem hafa náttúrlega verið mjög vaxandi í allri umræðu og í NATO-þinginu, þar sem ég er nú búinn að vera í sex ár, hefur verið gríðarlega mikil umræða allan tímann um netöryggi. Þessi umræða fór af stað hérna fyrir kannski tveimur árum eða svo. Fyrir tveimur, þremur árum fórum við að ræða netöryggismálin á Íslandi.

Í þjóðaröryggisstefnu síðastliðinn vetur, sem var samþykkt í febrúar, var komið mjög inn á netöryggismálin. Í þeirri þjóðaröryggisstefnu, sem var önnur í röðinni hjá okkur, sem var endurbætt frá fyrri þjóðaröryggisstefnu sem var sett í mars 2016, var einmitt bætt miklu inn um mikilvægi netöryggis sem er síðan einn af punktunum sem eru undir þessari stefnu sem við erum að ræða þar. Þannig að við erum öll að vakna varðandi þessa hluti.

Það er líka mikilvægt í þessu samhengi hérna sem við höfum séð — ég kem kannski aðeins inn á ávinning af verkefni eins og Ísland ljóstengt — að við getum líka, eins og ég var að tala um varðandi stóra kerfið, Orkufjarskipti, með einföldum tengingum með ljósleiðarasambandi bætt möskvun þeirra kerfa sem hafa verið lögð, ljósleiðaratengingar, um landið til þess einmitt að hringtengja fleiri staði og passa upp á þetta öryggi. Þetta er nákvæmlega það sama og þegar við erum að ræða varðandi raforkumálin, við viljum, eins og við tölum um í raforkumálunum, tvítengja. Við viljum hringtengja, sem við getum líka talað um sem tvítengingu í ljósleiðurum, og það er hægt að gera það og hafa það í huga þegar við erum að byggja upp þetta þekkingarsamfélag sem við eigum að huga að.

Það er kannski áhugavert að benda á rétt í lokin á þessari ræðu að það hefur verið unnin skýrsla, „Ísland ljóstengt“. Hún var unnin hér fyrir um tveimur árum til að meta félagslegan og efnahagslegan ávinning verkefnisins. Í ljós kom að það bætti kaupmátt á þeim svæðum þar sem ljósleiðarar höfðu verið lagðir og aðgengi að vörum og þjónustu stórbatnaði, það hækkaði laun og jók atvinnumöguleika og styrkti stöðu kvenna í dreifbýli.

Auðvitað var svolítill bónus að hafa öll þessi fjarskiptakerfi eins og ljósleiðaratengingarnar í heimsfaraldrinum og dreifbýli landsins hefðu aldrei getað tekist á við faraldurinn með sams konar hætti og hægt var að gera með því að hafa öflug fjarskiptakerfi um allt land. Það kemur líka fram í þessari skýrslu að efnahagslegur samdráttur og félagsleg einangrun hefði orðið meiri ef átakið Ísland ljóstengt hefði ekki komið til.

En að þessu samandregnu þá vil ég bara fagna að þessi stefna sé komin fram, ég vona að markmiðin með henni klárist fyrir lok ársins 2025, sem mig minnir að stefnt sé að.

Ég vildi kannski fara aðeins í þessa umræðu sem snýr raunverulega að hinum tæknilega grunni og hversu mikilvægt er að það komi inn. Þetta er kannski líka forsendan fyrir því sem hefur verið rætt mikið varðandi þjóðaröryggi landsins, að með þessari möskvun og styrkingu tenginganna, eins og með Orkufjarskiptum og slíku, þá er hægt að fara að reka hérna innan lands, sem er talið nauðsynlegt, í gegnum gagnaver, svona grunnþætti og haft þau gögn sem við þurfum nauðsynlega að hafa inni í landinu, í gagnaverum. Þá er gott að hafa þær öflugustu tengingar sem við getum náð í í gegnum þessar ljósleiðaratengingar sem við eigum hér. Við þurfum síðan að bæta aðeins við og finna hér í meðförum þingsins hvernig hægt er að takast á við það á næstu árum. — Ég hef lokið máli mínu, forseti.