154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[17:20]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að mæla fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, (innihaldsefni, umbúðir o.fl.). Sú sem hér stendur flytur sem framsögumaður málsins örstutta breytingartillögu en í henni felst frestun á gildistöku ákveðinna eftirlitsákvæða sem áttu að taka gildi 20. maí 2024. Sú tímasetning var upphaflega miðuð við að frumvarpið yrði afgreitt á vorþingi 2023. Hér er því lögð til frestun á gildistöku þessara ákvæða þannig að öll ákvæði e-, f- og g-liðar 6. gr. gildi 16 mánuðum eftir gildistöku laganna. Á mannamáli þýðir það að ákvæði um rekjanleika, skráningu og öryggismerkingar öðlist gildi gagnvart öllum tóbaksvörum á sama tíma en ekki á mismunandi tímum. Áður hafði verið gert ráð fyrir að eftirlit gagnvart sígarettum og tóbaki hæfist á öðrum tíma en gagnvart öðrum vörum. Þá hef ég gert grein fyrir þessari breytingartillögu.

Bara örstutt um málið í heild. Málið felur í sér samræmda kröfu til tóbaksvarna á sameiginlegum markaði Evrópu. Með því er verið að undirbyggja annað markvisst forvarnastarf en markmið forvarna er að fækka þeim sem missa heilsu og fjölga góðum æviárum. Forvarnir eru fjölþætt viðfangsefni, eins og við vitum, sem tekur stöðugum breytingum vegna samfélagsþróunar og nýrrar þekkingar og breyttra viðhorfa. Fræðsla byggir svo ofan á markvissar stjórnvaldsaðgerðir um stýringu aðgengis að vöru og um kröfur til vöru. Málið er vel rökstutt og ég styð það. Og eins og hefur komið fram í fyrri umræðu stígum við hér næstu skref með samræmingu á löggjöf um tóbak og nikótínvörur.