154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:34]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér er minnisstætt þegar hugmyndir um náttúrupassa hófust hér á Íslandi á svipuðum tíma og þessi mál voru að sækja í sig veðrið og Ísland að gerast eftirsóknarverðari áfangastaður en verið hafði. Þá var litla gula hænan dálítið einkennandi í þeim viðbrögðum. Auðvitað var spurt: Vilja rútufyrirtækin taka á sig skatt, vilja rútufyrirtækin taka á sig Íslandsskatt eða náttúrupassa? Vilja flugfélögin taka það á sig? Vilja leigubílaútgerðarmenn taka það á sig? Litla gula hænan sagði alltaf nei, ekki ég, ekki ég. En þetta var sum sé hengt utan um hálsinn á hóteleigendum og eftir stendur stór hluti gistihúsaeigenda í skammtímabransanum — þetta eru auðvitað allt skammtímaleigur — stikkfrír og það er engin skýring á því. Það er samkeppnishalli. Það er út af fyrir sig spurt hvers vegna ekki. Ef álögur af þessum toga er ekki beinlínis samkeppnishamlandi miðað við önnur lönd, segjum Norðurlönd sem eru ekki með gistináttagjald, hvers vegna þá þessi en ekki þessi, hvers vegna þessi grein þessarar ferðaþjónustu sem hér er um rætt sem leggur nú heilmikið til samfélagsins? Hví er það svo að þarna er ein hæna valin út en allir hinir segja: Ekki ég?