154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[21:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú bara svo að það bárust afskaplega margar umsagnir um þessa þrjá bandorma sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur verið að glíma við, alls konar athugasemdir settar fram, sömu í fleiri en einni umsögn o.s.frv. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd eða meiri hluti nefndarinnar er ekki að koma með breytingartillögur um allt sem gert var athugasemdir við og við megum þá vera ansi skyggn og glögg, við nefndarmenn, ef við hefðum átt að geta okkur til um það hvað það væri sem meiri hluti nefndarinnar myndi koma með. Ég kvarta undan því, forseti, að núna, korteri fyrir jól og korteri fyrir þingfund þar sem málefnið er á dagskrá, sé slík breytingartillaga sett fram án umræðu um hana sérstaklega og um sögu ívilnananna til bílaleiga, m.a. vegna orkuskipta, að það sé ekki dregið fram og áhrifin metin. Hér finnst mér vera kastað til höndunum.

Hv. þingmaður spyr hvort launahækkanir umfram framleiðni hafi ekki áhrif á verðbólgu í landinu og auðvitað, ef það er í ríkum mæli, hefur það áhrif. Við vitum það bæði. En það er framleiðnivandi í stærstu atvinnugrein okkar sem er ferðaþjónustan og þess vegna er mikilvægt að horfa á þetta allt saman í samhengi. Og þegar verið er, eins og ég sagði í ræðu minni, að kokka upp nýja gjaldtöku af því að við verðum einhvern veginn að fá inn fjármagn til að undirbúa innviðina okkar til að taka á móti (Forseti hringir.) öllum þessum ferðamannafjölda og við þurfum að takmarka aðgengi hér og þar, þá finnst mér skrýtið að láta eins og (Forseti hringir.) ferðaþjónustan sé ekki í lægra skattþrepinu — sem er neysluskattur, líkt og almenningur greiðir fyrir mat, fyrir orku og fyrir nauðsynjar — og við gefum erlendum ferðamönnum afslátt á gistingu. Og það má alveg tala um það, virðulegur forseti.