154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

almannatryggingar.

578. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, fyrir hönd velferðarnefndar. Með frumvarpinu er mælt fyrir um framkvæmd eingreiðslu að fjárhæð 66.381 kr. til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris skv. 24. gr., sbr. 26. gr., eða endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, á árinu 2023 skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 66.381 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember 2023, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.“

Í 2. gr. er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir 1,6 milljörðum kr. einskiptisframlagi til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Greiðslan kemur til viðbótar hefðbundnum orlofs- og desemberuppbótum lífeyrisþega og 2,5% hækkun bóta á miðju þessu ári. Gert er ráð fyrir að fjárhæð eingreiðslunnar hækki um 7,4% í samræmi við hækkun bóta lífeyristrygginga 1. janúar síðastliðinn og aftur um 2,5% í samræmi við hækkun bóta lífeyristrygginga 1. júlí síðastliðinn og mun fjárhæðin því vera sú sem áður hefur verið sagt.

Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um það í ákvæði til bráðabirgða að eingreiðslan skuli ekki teljast til tekna greiðsluþega og þannig skattfrjáls og að hún skuli ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna. Ákvæðið er til samræmis við ákvæði um fyrri eingreiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Þá hefur verið gerð grein fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umræðu að lokinni þeirri umræðu sem hér fer fram.

Virðulegi forseti. Við höfum verið að flytja mál eins og þetta, um svokallaða desemberuppbót til þeirra sem hér um ræðir, undanfarin ár. Það er nú kannski fyrst og fremst vegna þess að við erum ekki búin að breyta lögunum um almannatryggingar en eins og títt hefur verið rætt hér í þessum ræðustól er það yfirstandandi og búið að vera lengi og er búið að vera núna í samráðsferli. Uppbótin verður væntanlega partur af því þannig að við þurfum ekki að vera að takast á um þetta hér árlega. Þegar við samþykktum breytingar til eldri borgara þá féll þetta þar undir og þess vegna hefur ekki þurft að flytja sambærilegt mál og hér hefur verið gert undanfarin ár. En þetta skiptir máli og það sem skiptir mestu máli auðvitað í þessu er að það náist helst að greiða uppbótina fyrir jólin og auðvitað að hún hafi ekki áhrif á aðrar tekjur eða bætur eða lífeyri sem fólk hefur. Það er það sem skiptir fyrst og fremst máli, að þetta komi óskipt til þeirra sem á þurfa að halda því að sannarlega er þetta góð viðbót fyrir þá sem eru í þeim lága tekjustiga sem örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar eru gjarnan.

Eins og ég sagði áður þá legg ég til að málið gangi til 2. umræðu og tel ekki þörf á því að það gangi til nefndar. Nefndin er hér að flytja málið og er einhuga um það.