154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

Störf þingsins.

[11:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þær voru sláandi fréttirnar af nýjustu PISA-könnuninni sem sýndu að 40% nemenda geta ekki lesið sér til gagns eftir að hafa lokið grunnskólanámi á Íslandi. Þessi staða hefur með réttu verið sett í samhengi við tækifæri og lífsgæði sem börn í íslenskum skólum fara fyrir vikið á mis við og það er sannarlega hægt að taka undir þær áhyggjur. En það er fleira undir. Ég er nýkomin heim af fundi á vegum Norðurlandaráðs þar sem við fengum kynningu á því hvernig við getum byggt upp viðnámsþrótt lýðræðisríkja gegn fjölþáttaógnum. Hér liggur auðvitað undir upplýsingaóreiða, falsfréttir, skipulagðar áróðursherferðir þar sem tækninni er beint til að dulbúa áróður sem fréttir, og áfram mætti telja. Í bakgrunni liggur svo gjarnan valdabarátta stórvelda og togstreita milli ólíkra samfélagsgerða; lýðræðisríkja og einræðisríkja. Í miðjum fyrirlestri fór ég að hugsa um PISA. Ég fór að hugsa um það að 40% nemenda hér geta ekki lesið sér til gagns, hvað það þýðir fyrir viðnámsþrótt okkar gegn þessum fjölþáttaógnum ef nær helmingur íslenskra grunnskólabarna býr ekki yfir hæfni til að tileinka sér upplýsingar með gagnrýnum hætti. Ríkisstjórn kyrrstöðunnar ber hér mikla ábyrgð, sama ríkisstjórn og ætlar nú í ofanálag að skerða fjárframlög til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs um rúman milljarð. Hér er einfaldlega verið að grafa alvarlega undan öllu vísindastarfi og nýsköpun sem mun að óbreyttu leiða til atgervisflótta. Þetta er ekki ríkisstjórn þekkingarsamfélagsins, svo mikið er víst. Menntun eykur lífsgæði fólks. Menntun er öryggismál þjóðar. Menntun og vísindi verða að vera forgangsverkefni stjórnvalda, ekki bara þá daga sem við fáum áfall þegar okkur er sýnt svart á hvítu hver staðan er heldur alltaf.