154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

Störf þingsins.

[11:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það ergilegasta við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er að hún virðist trúa því í alvöru að hún sé með metnaðarfull markmið og að hún sé að ná þeim þegar tölurnar sýna annað. Útreikningar Umhverfisstofnunar benda til þess að árið 2030 náist 24% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda þegar ríkisstjórnin stefnir að 55% samdrætti. Ríkisstjórnin er ekki einu sinni hálfdrættingur á við sjálfa sig. En það ergilegasta við þetta er hvað það eru mörg tækifæri sem væri hægt að grípa og ná árangri á stuttum tíma. Eitt af stærstu verkefnum stjórnvalda þessi misserin er að draga úr losun frá vegasamgöngum. En það góða er að þar eru aðgerðirnar kannski einna viðráðanlegastar. Horfum t.d. á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Jú, jú, það er ákveðin skekkja í búsetu yfir landið en fyrir vikið erum við með meginþorra landsmanna á örlitlum bletti hér á suðvesturhorninu og það væri hægt að ná hröðum breytingum í notkun jarðefnaeldsneytis á því svæði. Hvernig væri t.d. að dæla pening í almenningssamgöngur á þessu svæði frekar en að líta alltaf til borgarlínu í framtíðinni sem lausn? Við þurfum að nota strætó dagsins í dag sem brú yfir í borgarlínuna og strætó þarf auðvitað að bæta úti um allt land þannig að fólk geti komist á milli bæja og landshluta og sveita. Það besta er að almenningur er meira en tilbúinn eins og sést á því hvernig sala á vistvænni ökutækjum hefur rokið upp og eins og sést á þeirri byltingu sem hefur orðið í hjólreiðum árið um kring.

Þess vegna vakti furðu þegar ríkisstjórnin lagði það til að hætta niðurfellingu á virðisaukaskatti á reiðhjólum núna um áramótin en gott að efnahags- og viðskiptanefnd hafði vit fyrir henni. En eftir sitjum við með þá súrrealísku upplifun að hafa séð umhverfisráðherra réttlæta þennan niðurskurð, jafnvel reiðast svolítið yfir því að við settum spurningarmerki við hann, vegna þess að stærstu áhyggjur ráðherra umhverfismála virðast vera að draga ekki nóg úr útgjöldum ríkissjóðs á meðan hans stærsta verkefni ætti að vera að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar kompásinn er svona skakkur hjá þeim ráðherra, er nema furða að við séum með áhyggjur af stöðu loftslagsmála í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur?