154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[13:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér fjöllum við um tóbaksvarnamál sem í heild felur í sér samræmdar kröfur til tóbaksvara á sameiginlegum markaði í Evrópu og með því er verið að undirbyggja annað markvisst forvarnastarf í hverju landi fyrir sig. Varðandi valkvæða ákvæðið sem hér var til umræðu, um fjarverslun yfir landamæri, þá hefur það verið innleitt í meiri hluta þeirra landa sem búin eru að innleiða þessa reglugerð. Fyrir liggur breytingartillaga frá þeirri sem hér stendur sem snýst um frestun á gildistöku eftirlitsákvæðanna sem áttu að taka gildi þann 20. maí 2024. Sú tímasetning var upphaflega miðuð við að frumvarpið yrði afgreitt á vorþingi og því er lögð til frestun á þeim ákvæðum.

Ég tel málið vel rökstutt og vil þakka hv. nefndarmönnum í velferðarnefnd samstarfið við vinnslu málsins.