154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands fyrir árin 2024--2028.

484. mál
[13:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum hér að fara að greiða atkvæði um áætlun í þróunarsamvinnu fyrir árin 2024–2028. Ég fagna því að utanríkismálanefnd hafi sameinast á nefndaráliti um þetta góða mál. Það skiptir miklu máli að við sem rík þjóð í hlutfalli við margar aðrar þjóðir séum að fara í þessa vegferð saman. Við ætlum að auka framlög okkar til þróunarsamvinnu og við ætlum að gera það, m.a. vegna þess að við vitum hvernig ástandið í heiminum er vegna misskiptingar fátæktar, stríðshörmunga afleiðinga loftslagsbreytinga. Og svo getum við líka minnst á það að staða kvenna víðs vegar um heiminn, sem og annarra hópa, konur eru nú ekki minnihlutahópur, er mjög slæm. Þess vegna skiptir það máli og ég fagna því að við verðum sameinuð í þessari stefnu.