154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[13:34]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu um þetta stefnumarkandi skjal til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi. Það er skýr lína og vilji hjá þessari ríkisstjórn, eins og þeirri síðari, að ýta undir fjölbreyttari útflutningstekjur og fleiri stoðir í hagkerfinu sem við trúum að geti aukið lífsgæði Íslendinga og boðið upp á fleiri tækifæri. Og ekki bara trúum við því heldur höfum við séð árangur af þeirri skýru stefnumörkun ríkisstjórnarinnar til að ná árangri í auknum útflutningstekjum og fjölbreyttari störfum hér á landi.

Af því að það hefur komið fram ákveðin umræða um að ákveðnar tímabundnar hækkanir séu að falla niður þá er staðreyndin sú að fjárveitingar til Rannsóknasjóðs, Innviðasjóðs og Tækniþróunarsjóðs verða 32% hærri árið 2024 en 2019 og þær verða ekki lægri þrátt fyrir að verðlag hafi hækkað. Og þegar framlögin eru skoðuð í því ljósi (Forseti hringir.) er ekki hægt að tala um niðurskurð sem kollvarpar umhverfi vísindarannsókna, (Forseti hringir.) enda er verið í sókn í háskólamálum þar sem um 15–20% af þeirri fjármögnun sem fer til háskólanna (Forseti hringir.) fara í öflugt rannsóknastarf háskólanna.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að í umræðum um atkvæðagreiðslu er ræðutími takmarkaður við 1 mínútu.)