154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[13:39]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Samfylkingunni höfum unnið ötullega með hv. allsherjar- og menntamálanefnd og hæstv. ráðherra í tengslum við efni þingsályktunartillögunnar en við getum ekki stutt efni hennar að virtum þeim áherslum sem fram koma í henni og þeirri umræðu sem að sjálfsögðu hefur skapast um menntamál á Íslandi að undanförnu. Hæstv. ráðherra talar um að hér falli niður tímabundnar hækkanir til háskólasamfélagsins og grunnrannsókna. Tölurnar tala sínu máli. Þetta eru u.þ.b. 70 stöðugildi rannsóknarnema sem þarna munu falla út til út ársins 2026. Þekkingarsamfélagið samanstendur aukinheldur af öllum skólastigum, ekki bara þeim stofnunum sem heyra beint undir ráðuneyti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og fyrir það líður þessi tillaga. Hér er engin framtíðarhugsun, engin heildarsýn og það er svo augljóst að jafnaðarmenn standa ekki að þessari ályktun sem ætti svo sannarlega að innihalda öll skólastig þessa samfélags.