154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[13:44]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að leggja áherslu á það að sú áætlun sem við greiðum atkvæði um til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi er metnaðarfull og mikilvæg. Það er hins vegar að mjög mörgu að hyggja við framkvæmdina og ég legg áherslu á að það er samvinnuverkefni margra aðila. Það sem ég vil sérstaklega draga fram er það sem er dregið fram í nefndarálitinu, að skipulagið sem við byggjum upp varðandi háskólanám og nýsköpun þarf að ná til landsins alls, til einstaklinga sem vilja fara í nám, óháð því hvar þeir búa, til þeirra sem vilja stunda rannsóknir í samvinnu við háskólaumhverfið, hvar sem þeir búa, og til þeirra sem vilja taka þátt í nýsköpun, hvar sem þeir búa. Staðreyndin er auðvitað sú að nýsköpun á Íslandi fer fram á grunni þeirra atvinnuvega (Forseti hringir.) sem hér hafa lengst af staðið undir framleiðslunni.