154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

vopnalög.

349. mál
[13:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp sprettur náttúrlega ekki upp úr engu heldur því að í ljós kom fyrir nokkrum árum að lítill hópur fólks á alveg gríðarlegt magn af skilvirkum drápstólum í okkar friðsæla landi. Sjálfvirkar og hálfsjálfvirkar byssur og rifflar eiga ekkert erindi hingað. Það þarf enginn sem þarf að veiða gæs í jólamatinn að eiga AK47 byssu, það er hægt að redda þessu öðruvísi en með tækjum sem eru þekktust fyrir það að valda fjöldadauða. Þess vegna þótti mér mjög skrýtið að sjá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar leggja til að setja aftur inn í lögin þá glufu sem ég hélt við værum að fylla upp í fyrir svokallaða safnara drápstóla. Það er ágætt að meiri hlutinn dragi breytingartillöguna til baka, einfaldara hefði kannski verið að sleppa henni bara og klára restina (Forseti hringir.) því að eftir því sem ég best veit þá er enginn ágreiningur um málið í heild. Það er bara þessi eina grein sem olli vandræðum. En gott og vel. (Forseti hringir.) Ég vona að málið komi betra til þingsins í janúar en þangað til munu Píratar ekki greiða atkvæði með því.