154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[14:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er svokallaður bandormur tvö. Venjulega er bara bandormur eitt sem kemur í upphafi þings og fylgir fjárlagafrumvarpinu. Nú erum við meira að segja líka með bandorm þrjú. Það er dálítið áhugavert í heildarsamhengi hlutanna að við erum búin að vera með ríkisstjórn í einhver sex fjárlög eða eitthvað svoleiðis og við erum á þeim stað á miðju seinna kjörtímabili ríkisstjórnarinnar að skattbreytingar eru að koma inn með rosalega stuttum fyrirvara. Það segir sitt um skipulagsleysið sem er í gangi í öllu í ríkisfjármálunum þegar allt kemur til alls. Umsagnaraðilar voru mjög ómyrkir í máli gagnvart þessum breytingartillögum sem voru lagðar til í þessum bandormi tvö, en meiri hlutinn finnst mér koma til móts við þær á þokkalega málefnalegan hátt miðað við hvernig umsagnir voru o.s.frv. En það er samt allt mjög kaótískt í þessu og því er ekki beinlínis hægt að hrósa málsmeðferðinni þegar allt kemur til alls. (Forseti hringir.) Þó að breytingartillögurnar sem meiri hlutinn er með séu vissulega til betrumbóta þá komum við ekki til með að styðja þær nema þessar einstöku sem eru augljósar, eins og varðandi Grindavík og hjólin og gallann varðandi virðisaukaskattinn af rafbílum.