154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[14:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræddum það talsvert mikið í nefndinni að breyta gistináttagjaldinu þannig að það væri mishátt eftir því hvers konar gistingu væri um að ræða. Mér og okkur í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði finnst það gríðarlega mikilvægt að verið sé að gera slíka breytingu, enda er þjónustan eða umgjörðin sem gisting er í gríðarlega fjölbreytt. Að auki er mikilvægt að ferðaþjónustan og ferðamenn sem hingað koma leggi af mörkum til samfélagsins og viðhalds á því. Mér finnst það mikilvægt sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að ná þurfi utan um það að Airbnb-heimagisting, sem ekki er innan virðisaukaskattskerfisins, verði einnig komið undir gistináttakerfið ef við ætlum að vera með þannig kerfi. (Forseti hringir.) Nefndinni gafst ekki tími til að vinna það frekar svo að ég vona að það verði tekið til skoðunar en greiði atkvæði með tillögunni.