154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

almennar íbúðir og húsnæðismál.

583. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga frá meiri hluta velferðarnefndar um breytingu á lögum um almennar íbúðir og lögum um húsnæðismál, vegna náttúruhamfara í Grindavík. Flutningsmenn þessa máls eru hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, sú sem hér stendur, Guðmundur Ingi Kristinsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Óli Björn Kárason og Berglind Harpa Svavarsdóttir.

Tilefni frumvarpsins er flestum kunnugt. Vegna þeirra miklu jarðhræringa sem gengið hafa yfir Reykjanesskaga tóku almannavarna- og lögregluyfirvöld þá ákvörðun að lýsa yfir lýsa yfir neyðarstigi og að Grindavíkurbær skyldi rýmdur. Var öllum íbúum Grindavíkurbæjar gert skylt að yfirgefa bæinn en alls voru um 3.700 íbúar skráðir með lögheimili í Grindavík áður en jarðhræringarnar hófust. Þá daga sem neyðarstigið stóð yfir var íbúum óheimilt að vera í Grindavík nema samkvæmt ákvörðun lögregluyfirvalda og í fylgd með björgunarsveitarfólki. Hinn 23. nóvember var almannavarnastig fært af neyðarstigi niður á hættustig. Þessa sögu þekkjum við.

Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafa orsakað mikið tjón í Grindavíkurbæ. Mat á tjóni er hafið og þó því sé ekki lokið þá er ljóst að verulegar skemmdir hafa orðið á hluta íbúðarhúsa í bænum. Gatnakerfi bæjarins og ýmsir innviðir, svo sem vatns- og frárennslislagnir, hafa jafnframt orðið fyrir miklum skemmdum. Töluverð óvissa ríkir um hver framvindan verður á jarðhræringum á svæðinu. Sú óvissa veldur því m.a. að hvorki er fyrirséð hvort né hvenær Grindvíkingum verði mögulegt að snúa aftur heim. Ríkisstjórn Íslands vinnur nú að sérstakri áætlun til að mæta húsnæðisvanda Grindvíkinga.

Til að bregðast við þessari þörf hefur m.a. verið undirrituð viljayfirlýsing um að Bjarg íbúðafélag kaupi allt að 60 almennar íbúðir til að mæta sérstaklega húsnæðisþörf tekju- og eignalægri heimila í Grindavík. Samkvæmt lögum um almennar íbúðir nema stofnframlög til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum 30% af stofnvirði íbúðar. Skiptist það þannig að 18% kemur frá ríki og 12% frá hlutaðeigandi sveitarfélagi þar sem íbúð er staðsett. Ljóst er að meiri hluti þeirra íbúða sem horft er til þess að kaupa samkvæmt viljayfirlýsingunni verður á suðvesturhorni landsins. Stofnframlag sveitarfélags mun því falla á þau sveitarfélög sem nú þegar hafa hlaupið undir bagga og veitt Grindvíkingum opinbera þjónustu, svo sem skóla- og leikskólapláss. Óljóst er á þessari stundu hvert fjárhagslegt svigrúm sveitarfélaganna er til þess að leggja fram 12% af stofnvirði þeirra íbúða sem stendur til að kaupa. Til að greiða fyrir kaupum íbúða í samræmi við viljayfirlýsinguna þarf því að gera breytingar á lögum um almennar íbúðir.

Í frumvarpinu er því lagt til að heimila Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að veita stofnframlag ríkisins vegna kaupanna þótt það komi ekki fullt stofnframlag á móti frá hlutaðeigandi sveitarfélagi. Stofnuninni verði jafnframt heimilt að veita hærri stofnframlög ríkisins sem komi í stað stofnframlags sveitarfélags í heild eða að hluta, ef svo ber undir. Ekki er þó gert ráð fyrir að umrædd heimild verði sérstaklega bundin við íbúðir samkvæmt framangreindri viljayfirlýsingu um íbúðakaup á vegum Bjargs enda um önnur félög að ræða sem falla undir þessa skilgreiningu..

Einnig er lagt til í frumvarpinu að gerðar verði breytingar á lögum um húsnæðismál sem heimili Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að veita lán til endurfjármögnunar á lánum sem tekin hafa verið hjá öðrum lánveitendum vegna umræddra íbúða fyrir tekju- og eignalága Grindvíkinga. Með því megi gera viðkomandi stofnframlagshöfum kleift að fjármagna sig til skemmri tíma hjá lánveitendum sem bjóða vaxtabindingu til skemmri tíma en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun án þess að þeir fyrirgeri með því möguleika sínum til að taka langtímalán hjá stofnuninni á síðari stigum.

Í því sambandi er horft til þess að leiguíbúðalán stofnunarinnar eru veitt til lengri tíma en almennt býðst á markaði, eða til allt að 50 ára, sem veitir stofnframlagshöfum fyrirsjáanleika og öryggi í rekstri. Aftur á móti eru vextir á slíkum lánum fastir til 10 ára samkvæmt gildandi lánskjörum eins og við sannarlega vitum og staðan er eins og hún er í þeim málum í dag að vextir eru afskaplega háir og því ekki skynsamlegt að festa sig í 50 ár.

Gert er ráð fyrir að um tímabundið úrræði verði að ræða sem gildi til ársloka 2024. Hins vegar er lagt til að fyrir þann tíma skuli ráðuneytið taka til sérstakrar skoðunar hvort þörf sé á því að framlengja úrræðið með hliðsjón af aðstæðum, eftir atvikum, með breytingum á fyrirkomulagi þess.

Forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og hv. velferðarnefndar.