154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

almennar íbúðir og húsnæðismál.

583. mál
[14:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Það er ánægjulegt að sjá hér fram komið frumvarp til þess að styðja við sérstaklega þá tekjuminnstu í Grindavík sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og við í Pírötum munum að sjálfsögðu styðja vel við það mál. Það er hins vegar dálítið sorglegt hversu seint þetta mál er að koma hingað inn. Það er nú þegar liðinn rúmur mánuður síðan þessi ósköp dundu yfir Grindvíkinga og við í stjórnarandstöðunni allri höfum lýst yfir okkar samstarfsvilja alveg frá upphafi en frumvarpið eða drögin að því komu samt ekki frá ráðuneytinu til okkar fyrr en seint í gær. Það er von okkar að þetta séu mistök sem verði ekki endurtekin og að frekari frumvörp og annað sem kemur inn vegna Grindavíkur eða annarra náttúruhamfara verði unnin nánar með minni hlutanum því að þetta er um málefni sem snertir þjóðina alla, að standa með Grindvíkingum.

Ég vil líka leggja það til við hæstv. innviðaráðherra að þegar þetta frumvarp hefur verið samþykkt, sem ég vona að verði gert hér hratt og auðveldlega á þessu þingi áður en við förum í frí, taki hann það módel sem hér hefur verið búið til og búi til lög sem hægt verður að nýta í framtíðinni þegar aðrar náttúruhamfarir munu dynja yfir okkur. Við erum bara rétt að byrja með Reykjaneseldana. Við erum líka að ganga inn í það tímabil að við munum þurfa að takast á við miklar loftslagsbreytingar. Við eigum ekki að þurfa margar vikur til þess að tryggja húsnæði og annað fyrir þá sem fyrir því verða. Enn og aftur: Við munum styðja framgang þessa frumvarps og vonum að nánara samstarf verði um slík mál í framtíðinni.