154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[16:51]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég kem bara upp svona í lok þessarar umræðu sem formaður atvinnuveganefndar og vil nota tækifærið til að þakka öllum nefndarmönnum fyrir mjög góða vinnu og færi sérstakar þakkir til framsögumanns málsins, Óla Björns Kárasonar. Þegar hv. þingmaður flutti sína framsögu hér áðan þá láðist honum að lesa upp hverjir skrifuðu undir nefndarálitið og ætla ég að taka ómakið af hv. þingmanni og gera það hér, virðulegi forseti. Þeir hv. þingmenn sem skrifa undir álitið eru sá sem hér stendur, Þórarinn Ingi Pétursson, Óli Björn Kárason, framsögumaður, Ásmundur Friðriksson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Hanna Katrín Friðriksson, með fyrirvara sem hv. þingmaður gerði grein fyrir hér áðan, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Tómas A. Tómasson.

Virðulegi forseti. Það hefur verið krefjandi fyrir nefndina að takast á við svona þungt verkefni en ég tel að nefndin hafi lagt sig verulega fram við að reyna að ná fram einhverri skynsamleg leið í þessu. En aftur á móti er það þannig þegar lagt er af stað í svona vegferð, og ég get tekið undir það með mörgum öðrum sem hafa átt hér fínar ræður um þetta mál, að okkur skortir upplýsingar. Við erum búin að fá mjög mikið af misvísandi upplýsingum og því miður eru margir hlutir á reiki hvað þetta varðar. En staðan er eins og hún er og við þurfum að bregðast við, það er alveg ljóst, og almenningur er í fyrirrúmi hvað það varðar. Ég vona að við höldum hér áfram með málið og nú er væntanlega 2. umræðu í þingsal lokið um þetta mál.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja fundinn, það liggur hér nógu mikið fyrir fundi, og þakka fyrir mig.