154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[17:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í stöðunni sem er uppi er auðvitað frumskylda að tryggja heimilum landsins rafmagn. Það er bara þannig. Mér sýnist að það hafi verið brugðist við að hluta til — ja, ég get alla vega sagt að ég setti fram þá skoðun mína í liðinni viku að það ætti að heimila fyrirtækjum að selja aftur inn á kerfið til að minnka þrýstinginn og auka svigrúm til þess eða draga úr líkunum á að þar kæmi til skerðingar.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, frumvarpið er ætlað sem varnaraðgerð gagnvart þeirri stöðu sem getur komið upp. Í því felast ekki skerðingar beint en heimildin er sett inn hérna og hún er ekki sett inn, gef ég mér, af einhverri léttúð. Það er vegna þess að til þeirrar stöðu horfir að nokkrar líkur eru á að þess þurfi. Maður getur ekki annað en gagnrýnt mjög harkalega þann sofandahátt sem orsakar að þetta er staðan. Ég reikna með að þegar málið kemur til lokaafgreiðslu á morgun hafi maður í raun enga aðra stöðu en að samþykkja það með óbragð í munni en ég ítreka bara að sú staða sem er uppi núna er til komin vegna sofandaháttar og þess sem ég hef leyft mér að kalla neitunarvald Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum, að því er virðist. Og þeirri stöðu verður ekki breytt með ríkisstjórnina svona samsetta í dag, því miður.