154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[19:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni framsöguna og taka undir nauðsyn þess að þessi skref séu stigin. Því miður þurfum við að horfast í augu við að þúsundir búa í svokallaðri óleyfisbúsetu í atvinnuhúsnæði. Það er afleiðing af m.a. óheilbrigðum húsnæðismarkaði og líka, myndi ég vilja segja, afleiðing þess að við sýnum fólki sem flytur hingað til lands ekki alltaf nægilega virðingu, vegna þess að megnið af fólkinu sem býr í þessum aðstæðum er innflytjendur sem vinna láglaunastörf.

Þetta mál sprettur upp úr atburði sem átti sér stað undir þinglok 2020 þegar við stóðum hér í sal 25. júní á sama tíma og Bræðraborgarstígur 1 brann og þar hlaust bani af. Það setti af stað atburðarás sem mig langar að spyrja þingmanninn um hvort hafi kannski tekið óþarflega langan tíma, vegna þess að það að leyfa þessa aðsetursskráningu er ekki lausn á vandanum heldur það sem kalla mætti skítamix, til að við vitum hvar þarf helst að bregðast við. Þetta er mjög mikilvægt fyrir slökkviliðið t.d. svo að það viti þegar það mætir á vettvang eldsvoða hvort um sé að ræða viðbragð þar sem líf eru í hættu eða ekki. Þetta er nauðsynlegt til að það sé hægt að hafa eftirlit með þessu. En þetta leysir ekki undirliggjandi vanda sem í þeim skýrslum sem hafa verið unnar er bent á leiðir til að leysa. Þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann hvort við séum ekki aðeins of sein að fá þetta í hendurnar.